Íslandsmet í magni frjókorna

Í maí hafa verið sett tvö met í magni birkifrjóa á Akureyri. Þann 21. maí fór frjótala birkis í 658 frjó/m3 og er það mesta magn birkifrjóa sem mælst hefur á einum sólarhring hér á landi. Að sama skapi hafa þar mælst fleiri frjókorn í maí en í nokkrum öðrum maímánuði frá upphafi mælinga 1998. Frjókornin eru flest birkifrjókorn en einnig er óvenju mikið af asparfrjókornum. Báðar tegundir eru langt yfir meðaltali fyrir maí. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála þar sem birkifrjó eru að meðaltali fleiri í júní en í maí. Frjótími birkis stendur vanalega yfir í 2–4 vikur og í ár hafa birkifrjó mælst samfellt frá 14. maí. Líklega mun draga úr birkifrjóregninu þegar kemur fram í júní.

Í Garðabæ er hins vegar allt mun rólegra þegar kemur að frjókornum. Þar hafa birkifrjó mælst samfellt frá 17. maí og fjöldi þeirra er rétt yfir meðallagi, miðað við talningar til 28. maí. Aspar- og lyngfrjó eru samt orðin töluvert fleiri en í meðalmaímánuði.

Frjókorn mælast flest í andrúmslofti þegar það er þurrt og hlýtt í veðri og svolítill vindur sem ber þau á milli staða.