Viðarnýra frá Broddadalsá í Strandasýslu afhent Skógræktinni

13.06.2017
Edda Sigurdís Oddsdóttir forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá tekur við viðarnýranu af Guðmundi Guðmundssyni forstöðumanni safna- og flokkunarfræðideildar á Náttúrufræðistofnun
Mynd: Trausti Baldursson

Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá, tekur við viðarnýranu af Guðmundi Guðmundssyni, forstöðumanni safna- og flokkunarfræðideildar á Náttúrufræðistofnun.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur falið Rannsóknastöð Skógræktarinnar að Mógilsá varðveislu á viðarnýra frá Broddadalsá í Strandasýslu sem rak á fjörur haustið 2002 og var það afhent 9. júní sl. í blíðskaparveðri á Mógilsá.

Við afhendinguna var hvatt til þess að rannsakað væri um hvaða trjátegund er að ræða og hver aldur trésins er. Jafnframt að tréð verði sýnilegt þeim sem heimsækja rannsóknastöðina að Mógilsá.

Fram kom að viðarnýranu verður fundinn staður úti við rannsóknastöðina og að þegar hefur farið fram frumgreining á því. Ólafur Eggertsson, sérfræðingur hjá Skógræktinni, sagði frá því að viðarnýrað er lerki sem er upprunið af vatnasvæði Pechora fljóts í Rússlandi og hafi verið fellt um 1980. Árhringir trésins eru 172 og var aldursskeið þess um 1808-1979.

Ólafur Eggertsson sérfræðingur hjá Skógræktinni segir frá aldri og uppruna viðarnýra
Mynd: Borgþór Magnússon

Ólafur Eggertsson með sneið af viðarnýranu og útskýrir aldur þess og uppruna.

Í frétt á vef Náttúrufræðistofnunar 23. september 2003 um viðarnýrað segir m.a. að stór viðarnýru (e:burr; burl) séu fágæt og miklir galdragripir. Þau eru æxlisvöxtur á trjám sem mynda gúl á stofninum. Það er ekki fyllilega ljóst hvað hleypir ælisvextinum af stað en sýking af völdum baktería, veira eða mycoplasma kann að eiga þátt í að nýrað tekur að myndast. Viðarvefurinn í æxlisvextinum er ósýktur en vöxturinn óreglulegur og nánast stjórnlaus. Þau eru sjaldan meira en nokkrir sentimetrar í þvermál en geta á sumum trjám orðið töluvert stærri.

Hægt er að lesa alla fréttina á vefnum vefsafn.is.