Frjómælingar í júní

Í Urriðaholti í Garðabæ voru frjótölur nálægt meðallagi í júní. Heildarfrjótala mánaðarins er 1364 frjó/m3 og fór frjótala tvisvar yfir 100 frjó/m3, dagana 1. og 3. júní. Meðalfrjótala í júní árin 2011–2016 er 1352 frjó/m3. Fyrri hluta mánaðar var mest um birkifrjó en þau mældust ekki eftir 23. júní. Fjöldi grasfrjóa jókst eftir því sem leið á mánuðinn og má áfram búast við þeim í júlí, því nú er aðalfrjótími þeirra farinn af stað. Einnig má gera ráð fyrir súrufrjóum.

Á Akureyri mældist heildarfjöldi frjókorna yfir meðallagi og einn dag fór frjótala yfir 100 frjó/m3, það var 17. júní. Meðalfrjótala frá árinu 1998 er 694 frjó/m3. Flest frjókornanna voru furufrjó, en nálægt þeim í fjölda voru birki- og grasfrjó. Eins og í Garðabæ mældust birkifrjó flest fyrri hluta mánaðar en þeirra varð ekki vart síðustu vikuna. Grasfrjókornum fjölgaði eftir því sem leið á mánuðinn og má búast við þeim áfram.

Í hlýju og þurru lofti og smá golu dreifast frjókornin helst og þá er best fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi að sleppa því að þurrka þvottinn úti og sofa við lokaðan glugga. Hafa ber í huga að með því að slá grasið fyrir blómgun þá myndast ekki frjókorn. Fari frjótölur grass yfir 10–20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart en það er þó einstaklingsbundið hversu næmt fólk er ásamt nálægð þess við blómstrandi grasið.

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í júní 2017 (pdf)