Leiðangur jarðfræðinga og líffræðinga í Surtsey

24.07.2017
Ungur útselur við norðurtanga
Mynd: Erling Ólafsson

Ungur útselur við norðurtanga.

Skordýrafræðingar fönguðu m.a. skrautlega smáflugu sem ekki hefur fundist hér á landi áður. Á flórulista eyjarinnar bættist nú grávíðir og er hann sjötugasta og fimmta háplöntutegundin sem finnst í eynni. Mikill hiti er enn í móbergssprungum í Surtsey fimmtíu árum eftir að eldgosi lauk þar. Hafrót brýtur stöðugt af eynni og sáust um það greinileg merki nú.

Árlegur leiðangur sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn 17.-20. júlí. Líffræðingar og jarðfræðingar voru þá við rannsóknir í eynni ásamt samstarfsfólki frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum og Umhverfisstofnun. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið. Í eynni fór fram reglubundin vöktun á landnámi plantna og dýra og mælingar voru gerðar á jarðhita í móbergi og breytingum á strandlínu eyjarinnar.

Gróður

Gróður var mjög gróskulegur í eynni í hlýju og úrkomusömu sumri. Graslendi sem myndast hefur í máfavarpi á suðurhluta eyjarinnar færist stöðugt út og þéttist. Í því ber mest á túnvingli, vallarsveifgrasi, melgresi, varpafitjungi, baldursbrá og haugarfa sem eru nær einráðar tegundir í elsta hluta varpsins. Í jaðri þess er tegundafjölbreytni meiri og þar hafa mela- og strandlendistegundir breiðst mjög hratt út, en dæmi um það eru holurt, melablóm, hundasúra, skarifífill, blóðberg og tungljurt. Á norðurtanganum er gróskumikill strandgróður af melgresi, fjöruarfa, blálilju, fjörukáli og hélublöðku.

Sjávarfitjungur ríkir á hraunklöppum næst bjargbrún en ofar tekur við fjöbreyttari gróður í máfavarpinu og móbergshæðir að baki
Mynd: Borgþór Magnússon

Varpafitjungur ríkir á hraunklöppum næst bjargbrún en ofar tekur við fjöbreyttari gróður í máfavarpinu og móbergshæðir að baki.

Ekki fundust nýir landnemar háplantna að þessu sinni, en hins vegar kom í ljós að smávaxin víðiplanta sem fannst fyrst árið 2012 og torvelt var greina til tegundar er grávíðir. Með honum hafa alls 75 tegundir háplantna fundist í eynni frá árinu 1965. Af þeim fundust í leiðangrinum 62 tegundir með lifandi einstaklinga. Frá árinu 2008 hefur tegundum háplantna ekki fjölgað að marki í eynni og hafa þær haldist rétt um og yfir 60. Svo virðist sem hægt hafi á því landnámi sem fylgdi myndun máfavarps upp úr árinu 1985.

Grávíðir í apalhrauni í Surtsey
Mynd: Erling Ólafsson

Grávíðir í apalhrauni í Surtsey.

Dýralíf

Máfavarpið í Surtsey var nú í miklum blóma. Svartbökum hafði fjölgað frá fyrra ári en þá voru þeir líka fleiri en áður. Sumarið 2016 hafði varp þeirra stóraukist á norðurtanganum og enn frekar í ár. Varp sílamáfa færist með hverju árinu yfir á suðausturhluta eyjarinnar eftir því sem gróska graslendis eykst í varplandinu. Silfurmáfar urpu sem fyrr innan um sílamáfana. Ritur mættu ekki til varps í björgunum frekar en í fyrra. Hrafninn hafði komið upp tveim ungum úr laupi sínum í Surtungi og maríuerlupar var með fleyga unga. Engin merki sáust um þúfutuittlinga í varpi að þessu sinni og er það í fyrsta sinn síðan þeir mættu til leiks árið 2002. Snjótittlingar voru samir við sig, nokkur pör og ungar þeirra komnir úr hreiðrum. Teista virist vera með venjulegu móti, svo og fýll en fýlsvarp hafði aukist uppi á eynni í varplandi máfanna. Óvíst var með varp lunda en nokkrir héldu sig þó á sjó á hefðbundnum varpslóðum. Æðarkolla sást á bjargbrún og mætti á þyrlupallinn eitt síðkvöldið til að baða sig í fersku vatni sem þar safnaðist í úrhelli. Hún virtist heimarík og er ekki ólíklegt að hún hafi aftur reynt fyrir sér með varp, en kolla með unga var í eynni 2015. Staðfest var að átta tegundir fugla hafa orpið á eynni að þessu sinni en óvissa var með lunda og æðarfugl. Aðrar fuglategundir sem sást til voru súla, fálki, heiðlóa, sendlingur, skúmur, rita, kría, álka, langvía og steindepill.

Æðarkolla við bjargbrún
Mynd: Borgþór Magnússon

Æðarkolla við bjargbrún.

Sílamáfar í jaðri máfvarpsins í Surtsey
Mynd: Borgþór Magnússon

Sílamáfar í jaðri máfavarpsins í Surtsey.

Óvenju margir selir héldu sig með ströndum tangans, mest útselir en einnig sáust landselir. Þeir voru óvenju hnýsnir og fylgdust með rannsóknafólki úr nálægð. Engir hvalir sáust að þessu sinni en jafnan hefur mátt fygjast með fjölskyldum háhyrninga undan landi.

Selaskoðun og ljósmyndun á norðurtanga
Mynd: Borgþór Magnússon

Selaskoðun og ljósmyndun á norðurtanga.

Veður varð smádýrarannsóknum til trafala. Safnað var með fallgildrum í föstum gróðurmælireitum og tjaldgildru í máfabyggðinni. Þess mátti sjá merki að afli væri öllu minni en jafnan áður vegna regns og roks drjúgan hluta rannsóknatímans. Veðrið varð einnig til þess að söfnun með háfum var tolveld. Fáar niðurstöður liggja fyrir á þessu stigi en úrvinnsla fer fram síðar. Þó er ljóst að ein tegund tvívængju fannst ný fyrir Surtsey á tveim stöðum á eynni. Ekki einungis reyndist hún ný fyrir Surtsey því hún er einnig nýjung í íslensku smádýrafánunni. Tegundin hefur ekki verið greind. Um er að ræða agnarsmáa afar skrautlega tegund af frittfluguætt (Chloropidae).

Ennþá ógreind tvívængja af frittfluguætt (Chloropidae) fannst ný fyrir Surtsey og um leið ný fyrir Ísland
Mynd: Erling Ólafsson

Ennþá ógreind tvívængja af frittfluguætt (Chloropidae) fannst ný fyrir Surtsey og um leið ný fyrir Ísland!

Jarðfræði

Hiti var mældur í sprungum á yfirborði móbergsins í Austur- og Vesturbunka. Mælt er á 10-20 cm dýpi. Í Austurbunka var hæsti hiti 94,4°C sem er svipað og verið hefur undanfarin ár. Í Vesturbunka mældist mest 95,7°C. Þar hefur hiti lækkað nokkuð frá árinu 2015 þegar mesti hiti þar var 99,6°C. Greinileg hitaaukning var í Vesturbunka í kjölfar jarðskjálfta sem varð við Surtsey 25. apríl 2015, en hún hefur nú gengið til baka að hluta. Hitamælingarnar eru liður í langtímavöktun á kólnun jarðhitakerfisins sem myndaðist undir lok Surtseyjarelda. Þessi jarðhiti hefur skipt sköpum um myndun móbergs í eynni.

Jarðhitasprunga á Vesturbunka þar sem hiti mældist 95,5°C
Mynd: Kristján Jónasson

Jarðhitasprunga á Vesturbunka þar sem hiti mældist 95,5°C.

Rof og setflutningar í eynni voru kannaðir og GPS mælingar gerðar á suðurströnd Surtseyjar og á tanganum norðan megin. Mikið rof er á hrauninu við suðurströndina og hafði stór spilda horfið í hafið frá árinu 2015 þegar hún var síðast könnuð. Nýjar brotasprungur halda áfram að myndast samsíða bjargbrúninni.

Tanginn norðan í Surtsey er síbreytilegur. Sjávaraldan færir honum efnivið úr hraunum og móbergi eyjarinnar, auk þess sem hún breytir lögun tangans með setflutningi fram og til baka. Í leiðangrinum urðu menn vitni af slíkum breytingum á tanganum vegna sjávarágangs. Þegar komið var út í eynna var nyrsti hluti tangans með sveig til austurs. Þriðjudaginn 18. júlí skall á með austanhvassviðri sem varð til þess að við lok leiðangursins sveigði tanginn til vesturs.

Tangi Surstseyjar 17. júlí 2017 þar sem hann sveigir til austurs
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Tanginn í Surtsey 17. júlí þar sem hann sveigir til austurs.

Tangi Surtseyjar 20. júlí 2017 eftir mikið hvassviðri. Það breytti lögun tangans sem sveigir nú til vesturs.
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Tanginn í Surtsey 20. júlí eftir mikið hvassviðri. Það breytti lögun tangans sem sveigir nú til vesturs.

Leiðangursfólk
 

Leiðangursfólk f.v. Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Matthías Viðar Alfreðsson, Pawel Wasowicz, Sune Linder, Borgþór Magnússon, Kristján Jónasson og Erling Ólafsson
Mynd: Erling Ólafsson

Leiðangursfólk, f.v. Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Matthías Viðar Alfreðsson, Pawel Wasowicz, Sune Linder, Borgþór Magnússon, Kristján Jónasson og Erling Ólafsson.