Aðgerðir gegn varasömum risahvönnum

31.08.2017
Risahvönn
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Risahvönn (Heracleum).

Bjarnarkló og tröllakló eru meðal tegunda sem nýverið voru settar á lista Evrópusambandsins yfir ágengar, framandi tegundir sem eru líklegar til að valda skaða. Tegundir á listanum sæta ýmsum takmörkunum, meðal annars á ræktun, innflutningi, sölu og sáningu. Mikilvægt er að vinna gegn útbreiðslu tegundanna hér á landi.

Framandi tegundir, hvort sem um er að ræða dýr, plöntur, sveppi eða örverur, þurfa ekki alltaf að vera áhyggjuefni. Þó er það staðreynd að nokkuð hátt hlutfall framandi tegunda getur orðið að ágengum tegundum, sem ógna líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfum sem þær vaða yfir, auk þess sem þær geta verið skaðlegar heilsu manna og haft neikvæð áhrif á hagkerfi þjóða.

Í ágústbyrjun var þremur tegundum af ættkvísl risahvanna (Heracleum) bætt á lista Evrópusambandsins yfir ágengar framandi tegundir sem líklegar eru til að valda skaða. Um er að ræða tegundirnar: bjarnarkló (Heracleum mantegazzianum) og tröllakló (H. persicum), sem finnast hér á landi, og tegundina H. sosnowskyi. Tegundir á listanum sæta ýmsum hindrunum og aðgerðum sem nánar er fjallað um í reglugerð nr. 1143/2014 um varnir og stjórnun ágengra, framandi tegunda. Meðal annars eru takmarkanir á ræktun tegundanna, innflutningi, sölu og sáningu. Ríkjum sem aðild eiga að samkomulaginu ber að grípa til aðgerða til að hindra óafvitandi aðflutning ágengra tegunda, gera ráðstafanir til að greina aðflutning þeirra snemma og hraða útrýmingu. Að auki skulu þau hafa stjórn á útbreiðslu ágengra tegunda sem þegar eru farnar að breiða úr sér. Óheimilt er að flytja bjarnarkló og tröllakló til Íslands og rækta hér samkvæmt reglugerð 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda.

Á síðustu árum hafa risahvannategundirnar, bjarnarkló og tröllakló, breiðst út á Íslandi en þær eru enn að mestu bundnar við þéttbýli. Árið 2015 gekkst Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir kortlagningu á útbreiðslu þeirra á Akureyri og fundust þá meira en 2.000 plöntur utan einkagarða. Líklegt er að þeim hafi fjölgað síðan. Á þessu ári er svipuð kortlagning í gangi í Reykjavík en borgin vill takmarka útbreiðslu risahvanna og vinnur samkvæmt aðgerðaáætlun þess efnis. Þá voru risahvannir kortlagðar í Stykkishólmi árið 2008. Í kjölfarið lét sveitarfélagið fjarlægja nær allar plöntur af þessum tegundum en hefur þurft að endurtaka aðgerðirnar nokkrum sinnum á sumum stöðum.

Til að vel megi takast til við útrýmingu risahvanna eru langtímaaðgerðir nauðsynlegar. Það er von Náttúrufræðistofnunar Íslands að staðbundið verði hægt að takast á við þann vanda sem af risahvönnum hlýst á Íslandi áður en þær fara að dreifast stjórnlaust um náttúru landsins. Stofnunin biðlar til almennings um að taka þátt í aðgerðunum með því að eyða tegundunum úr einkagörðum sínum og koma þannig í veg fyrir frekari útbreiðslu þeirra.

Nánari upplýsingar um risahvannir.