Frjómælingar í júlí

09.08.2017
Háliðagras á Akureyri 2010
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Háliðagras á Akureyri.

Fjöldi frjókorna mældist mjög mikill á Akureyri í júlí en í Garðabæ var hann heldur minni en meðalári. Á báðum stöðum stendur frjótími grasa enn yfir.

Í Urriðaholti í Garðabæ voru frjótölur undir meðallagi í júlí. Heildarfrjótala mánaðarins er 569 frjó/m3 en meðaltal undanfarinna ára er 949 frjó/m3. Langmest var um grasfrjó og fór frjótala þeirra 20 sinnum yfir 10 frjó/m3 og sjö sinnum fyrir 20 frjó/m3, en þá er hætta á að ofnæmiseinkenna verði vart. Frjótalan fór tvisvar sinnum yfir 50 frjó/m3. Flest frjó mældust síðustu vikuna í júlí þegar mjög þurrt og sólríkt var á höfuðborgarsvæðinu.

Á Akureyri var heildarfjöldi frjókorna 2053 frjó/m3 sem er miklu hærra en í meðalári (895 frjó/m3). Langflest frjókornanna voru grasfrjó. Frjótala þeirra fór 22 sinnum yfir 10 frjó/m3, sjö sinnum yfir 50 frjó/m3 og fjórum sinnum yfir 100 frjó/m3, sem er mjög hátt.

Frjótíma grasa er alls ekki lokið og má búast við frjókornum næsta mánuðinn.

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í júlí 2017 (pdf)