Fyrsti íslenski fuglaljósmyndarinn í tilefni af degi íslenskrar náttúru

12.09.2017
Æðarvarp
Mynd: Björn Björnsson

Æðarfuglar í varpi.

Föstudaginn 15. september kl. 15:15 ætlar Náttúrufræðistofnun Íslands að fagna degi íslenskrar náttúru með því að bjóða upp á fyrirlestur um Björn Björnsson, fyrsta íslenska fuglaljósmyndarann.

Árið 2010 ákvað ríkistjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem var valinn er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en hann hefur í gegnum tíðina sem frétta- og þáttagerðarmaður verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Náttúrufræðistofnun Íslands ætlar að fagna deginum föstudaginn 15. september. Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur mun flytja erindi sem nefnist „Fyrsti íslenski fuglaljósmyndarinn“. Björn Björnsson (1889–1977) var frumherji í fuglaljósmyndum hér á landi. Hann var kaupmaður á Norðfirði en vann að ljósmyndun meðfram störfum sínum. Á síðari árum sérhæfði hann sig í fuglaljósmyndun og ferðaðist víða um landið í þeim tilgangi, oft með Finni Guðmundssyni fuglafræðingi á Náttúrugripasafninu, eins og Náttúrufræðistofnun Íslands hét þá. Segja má að Björn hafi verið hálfgerður hirðljósmyndari Finns og náði hann myndum af nær öllum íslenskum varpfuglum. Hluta þessa stórmerka safns ánafnaði hann Náttúrufræðistofnun Íslands. Í fyrirlestrinum verður brugðið upp úrvali af fuglamyndum Björns, sagt frá aðferðum hans við myndatökurnar og gerð grein fyrir þýðingu þeirra í almannafræðslu og fuglavernd þess tíma.

Fyrirlesturinn hefst kl. 15:15 og lýkur kl. 16:00. Hann verður haldinn í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ.

Þess má geta að Þjóðminjasafn Íslands hefur síðan í byrjun júní haldið úti sýningu á ljósmyndum Björns. Hún ber heitið „Fuglarnir, fjörðurinn og landið“ og er síðasti sýningardagur í dag, þriðjudaginn 12. september.