Met í fjölda grasfrjóa

07.09.2017
Vallarfoxgras (Phleum pratense)
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Vallarfoxgras (Phleum pratense)

Þann 1. september var slegið met í fjölda grasfrjóa á Akureyri. Þá mældust 460 frjó/m3 á einum sólarhring og er það hið mesta sem hefur mælst af grasfrjóum á einum degi þetta árið. Í ágúst var fjöldi frjókorna norðan heiða í rúmu meðallagi en í Garðabæ var hann heldur minni en í meðalári. Nú fer frjótíma senn að ljúka en þó má gera ráð fyrir að grasfrjóa verði vart á góðviðrisdögum í september.

Á Akureyri hefur frjótala grasa aðeins einu sinni áður mælst yfir 400 frjó/m3 og var það 25. ágúst 2015. Það hefur nokkrum sinnum gerst í Reykjavík eða árin 1988, 1991 og 2010.

Ef horft er til nýliðins ágústmánaðar var heildarfjöldi frjókorna á Akureyri nokkuð yfir meðaltali áranna 1998–2016. Grasfrjó voru langalgengust eða um 92% allra frjókorna. Miðað við fjölda grasfrjóa í byrjun september stefnir nú allt í að sumarið í ár verði svipað og metárið 2014 en þá voru óvenju mörg grasfrjó í lofti.

Í Urriðaholti í Garðabæ voru frjótölur aðeins undir meðallagi í ágúst. Líkt og á Akureyri voru grasfrjó algengust eða um 78% frjókorna.

Í september eru oftast fremur fá frjókorn í lofti en grasfrjó geta þó gert vart við sig í nokkru magni á þurrum góðviðrisdögum. Frjómælingar halda áfram út september.

Fréttatilkynning um frjómælingar í ágúst 2017 (pdf)

Nánar um frjómælinga