Nýlegar skýrslur um stöðu lífríkis á norðurslóðum

19.09.2017
Kápa skýrslunnar „State of the Arctic Marine Biodiversity Report“

Kápa skýrslunnar „State of the Arctic Marine Biodiversity Report“ 

Í maí síðastliðnum voru gefnar út á vegum CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna), Norðurskautsráðsins og PAME (Protection of the Arctic Marine Environments) þrjár skýrslur sem varða lífríki á norðurslóðum. Ein fjallar um líffræðilega fjölbreytni í vistkerfum sjávar á norðurslóðum, önnur um friðlýst svæði á norðurslóðum og sú þriðja er aðgerðaáætlun gegn ágengum, framandi tegundum.

CAFF og Norðurskautsráðið gáfu út skýrsluna „State of the Arctic Marine Biodiversity Report“ (SAMBR) og er hún afurð verkefnisins Circumpolar biodiversity monitoring program (CBMP). Í henni er fjallað um líffræðilega fjölbreytni í vistkerfum sjávar á norðurslóðum og breytingar sem orðið hafa. Rætt er um breytingar á fæðuframboði, skerðingu búsvæða á ísilögðum svæðum, fjölgun smitsjúkdóma og yfirvofandi innrás suðlægra tegunda. Fjallað er um sex lykilþætti sem leggja þarf áherslu á að afla upplýsinga um við vöktun á líffræðilegri fjölbreytni sjávar á norðurslóðum en það eru: lífríki á ísilögðum svæðum, svif, botndýralíf, sjávarfiskar, sjófuglar og sjávarspendýr. Breytingar hjá þessum hópum eru líklegar til að segja til um atburðarrás í sjónum almennt. Yfir 60 sérfræðingar tóku saman fyrirliggjandi gögn og eru höfundar skýrslunnar, þar á meðal Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Skýrslan „State of the Arctic Marine Biodiversity Report“

CAFF, PAME og Norðurskautsráðið gáfu út skýrsluna „Arctic Protected Areas Indicator Report“ og er hún einnig afurð verkefnisins CBMP. Í henni eru meðal annars upplýsingar um umfang og þróun friðlýstra svæða á norðurslóðum og fjölda svæða sem eru á Heimsminjaskrá eða Ramsar-svæði. Árið 2013 skilgreindi Norðurskautsráðið 98 svæði sem hefðu mikla vistfræði- og menningarlega þýðingu í tengslum við sjávarflutninga um norðurslóðir en samkvæmt skýrslunni eru um 5% þeirra innan friðlýstra svæða.

Skýrslan „Arctic Protected Areas Indicator Report“

CAFF, PAME og Norðurskautsráðið gáfu út aðgerðaáætlun gegn framandi og ágengum tegundum „The Arctic Invasive Alien Species (ARIAS) Strategy and Action Plan“. Í henni er bent á að koma slíkra tegunda dragi verulega úr líffræðilegri fjölbreytni, ógni tilvist tegunda, valdi hnignun vistkerfa og breytingum á hagkerfi. Því er kallað eftir því að Norðurskautsráðið og samstarfsaðilar þess grípi nú þegar til aðgerða til að hamla komu þeirra inn á norðurslóðir, unnið verði að því að bæta þekkingargrunn þannig að taka megi vel upplýstar ákvarðanir, unnið verði að forvörnum og ráðstafanir gerðar til að greina aðflutning tegundanna snemma og bregðast við.

Skýrslan „The Arctic Invasive Alien Species (ARIAS) Strategy and Action Plan“