Surtsey 54 ára í dag

14.11.2017
Kápa bókarinnar „Life on Surtsey – Iceland´s Upstart Island“. Höfundur Loree Griffin Burns.

Nýútkomin bók um Surtsey: Live on Surtsey – Iceland´s Upstart Island. Höfundur Loree Griffin Burns.

Um áraraðir hefur Surtsey verið vettvangur sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til rannsókna, jafnt á sviðum jarðfræði sem líffræði. Stofnunin gerir út árlega leiðangra til að vakta þróun eyjarinnar, landmótun og lífríki. Surtsey reis úr sæ þann 14. nóvember 1963. Hún á því afmæli í dag, 54 ára, og er þess hér minnst. 

Á þessum afmælisdegi Surtseyjar kemur út bókin „Life on Surtsey – Iceland´s Upstart Island“ eftir ameríska vísindarithöfundinn Loree Griffin Burns. Er þetta fimmta bók höfundar í bókaflokki sem kallast „Scientists in the field“ og hefur þann tilgang að fræða amerísk ungmenni um vísindastörf náttúrufræðinga.

Loree fékk veður af rannsóknum sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands á Surtsey og þótti verðugt að kynna þær ungum löndum sínum. Hún sótti um leyfi Umhverfisstofnunar til að fylgja leiðangri Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar í júlí 2015 og var það henni veitt.

Afrakstur ferðarinnar hefur nú litið dagsins ljós. Í bók sinni lýsir Loree af einlægni kynnum sínum af leiðangursmönnum, aðbúnaði þeirra á eynni og störfum. Vísar titill bókarinnar fyrst og fremst til þess. Loree lagði sérstaka áherslu á að fylgja skordýrafræðingunum eftir og fylgjast með daglegum störfum þeirra. Þó amerísk ungmenni séu markhópur höfundar þá eru bækur Loree fræðandi fyrir fólk á öllum aldri.

Bókin er gefin út af Houghton Mifflin Harcourt Publishing Company, New York. Hún er í stóru broti (29×23 cm), 74 blaðsíður, veglega myndskreytt með myndum höfundar auk mynda frá leiðangursmönnum, einkum Erlings Ólafssonar. Ólíklegt er að bókin verði til sölu í bókabúðum hér á landi en nálgast má hana hjá Amazon.com. Þar kostar hún aðeins $11,60.

Loree Griffin Burns, höfundur bókarinnar „Life on Surtsey – Iceland´s Upstart Island“ á Surtsey.
Mynd: Erling Ólafsson

Loree Griffin Burns, höfundur bókarinnar „Life on Surtsey – Iceland´s Upstart Island“ á Surtsey 16. júlí 2015.