Leiðangur líffræðinga í Surtsey

Tegundafjöldi æðplantna hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár í Surtsey eða um og yfir 60 tegundir en gróðurinn er almennt þroskamikill þetta sumarið vegna ríkjandi og langvarandi úrkomutíðar. Máfavarpi hefur heldur hnignað í eynni en varp fýla er með eðlilegu móti. Agnarsmá skrautleg flugutegund af frittfluguætt sem fannst á síðasta ári ný fyrir Surtsey og Ísland líka fannst nú aftur og í meiri fjölda.

Árlegur leiðangur líffræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn 16.-19. júlí að þessu sinni. Leiðangrinum fylgdu sérfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands og mosafræðingar frá Háskólanum í Lundi, eldfjallavistfræðingur og náttúruljósmyndari frá Bandaríkjunum og fulltrúi Umhverfisstofnunar. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið og Umhverfisstofnun. Árleg vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt, auk rannsókna á fléttum og mosum sem ekki eru eins tíðar.

Gróður

Gróðurmælingar fóru fram í föstum mælireitum, alls 29 reitum vítt og breytt um eyna. Eins og jafnan var auk þess leitað tegunda æðplantna. Engar nýjar tegundir fundust en allar þær tegundir sem fundust á síðasta ári fundust enn á lífi, alls 62 tegundir. Niðurstöður síðustu ára gefa í skyn að hægt hafi á landnámi æðplantna enda eru aðstæður á eynni fábreytilegar og takmarakandi fyrir landnám margra tegunda. Tegundafjöldi hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár um og yfir 60. En gróður var almennt þroskamikill og mátti vel merkja afleiðingar ríkjandi og langvarandi úrkomutíðar þetta sumarið. Haugarfi í máfavarpi var einstaklega máttugur og varpafitjungur á hraunklöppum líflegur en hann skrælnar jafnan í langvarandi þurrkum. Fyrir fimm árum blómstraði ætihvönn í fyrsta skipti og sáði þúsundum fræja. Hún drapst að því loknu og nýjar kímplöntur spruttu upp ári síðar. Nú hafði einn afkomandinn náð að blómstra og var að þroska fræ í fjölmörgum sveipum.

Fléttur

Fléttufunga Surtseyjar er könnuð á fjögurra ára fresti og hafa tæplega 90 fléttutegundir fundist þar. Enn á eftir að greina hrúðurfléttur sem safnað var að þessu sinni en ekki er hægt að merkja miklar breytingar á fléttufungunni á síðustu fjórum árum. Mókrókar, Cladonia furcata, hafa þó aukið útbreiðslu sína töluvert í grennd við máfavarpið. Töluvert er enn af hrúðurfléttum á toppi Austurbunka þrátt fyrir að móberg sé langt í frá hagstætt undirlag fléttna. Þrátt fyrir leit fundust engar þær tegundir fjörufléttna sem algengar eru á klöppum við strendur Íslands. Setstaðir fugla hýstu fjölbreytt úrval tegunda er sækja í áburðarríkt umhverfi eins og fuglaglæða, Xanthoria candelaria, og fuglagráma, Physcia dubia.

Fuglar

Máfavarpið sem er drifkrafturinn í framvindu gróðurs og dýralífs á eynni var afar dapurt að þessu sinni. Aðeins stöku svartbaksungar voru að komast á legg en ungar sílamáfa og silfurmáfa sáust ekki þó einstaka par gæfi unga til kynna. Máfakórinn sem jafnan sveimar hávær yfir varpinu var óvenjulega þögull. Hvað veldur liggur ekki fullljóst fyrir. Við hefðbundnar talningar á notuðum hreiðrum kom í ljós að þau hafa aldrei verið færri. Ef til vill hefur fæðuskortur dregið úr varpi og torveldað ungauppeldi þeirra sem náðu að verpa. Þá hafa votviðrin mögulega valdið litlum ungum vosbúð.

Varp fýla var með eðlilegu móti en aldrei fyrr hafa jafnmörg teistupör sést umhverfis eyna. Ekki varð vart við lunda á varpstað þeirra og engar ritur voru sjáanlegar í varpi í björgunum. Hrafninn hafði komið tveim ungum á flug. Minnst fimm pör snjótittlinga voru á einni, hreiður fannst með hálfvöxnum ungum en engir ungar virtust komnir á flug og er það óvenjulegt á þessum tíma sumars. Tvö pör af maríuerlum voru með fleyga unga og þúfutittlingur sást staðbundinn þó ekki yrði varp staðfest. Staðbundin æðarkolla hélt sig inni á eynni eins og síðastliðið sumar. Hún klakti út ungum 2015 og gæti hafa reynt fyrir sér árin á eftir án árangurs.

Smádýr

Smádýrarannsóknir fóru fram á hefðbundinn hátt með fallgildrum í flestum gróðurmælireitanna og víðar, tjaldgildru í máfavarpi og háfun og beinni tínslu. Óhagstætt veður einn daginn setti strik í þann reikning en skammur rannsóknatími má illa við slíku. Fátt óvenjulegt bar fyrir augu en úrvinnsla gagna bíður síðari tíma. Helst vakti athygli að agnarsmá skrautleg flugutegund af frittfluguætt sem fannst á síðasta ári ný fyrir Surtsey og Ísland líka fannst nú aftur og í meiri fjölda. Úrkomusama tíðin hefur gert það að verkum að sniglar áttu nú góðu gengi að fagna. Engjasnigil mátti finna undir mörgum hraunhellum og rekaviði og fundust meira að segja eggjaklasar þeirra sem hefur ekki gerst áður.