Tillögur um rjúpnaveiði 2018

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2018. Niðurstöðurnar voru kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra í bréfi þann 13. september sl. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 67 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 57 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga á Norðausturlandi reyndist vera 77%, sem er ágæt viðkoma og svipuð og í fyrra. Á Suðvesturlandi var viðkoman hins vegar ein sú lélegasta sem hefur mælst hér á landi en þar var ungahlutfall 68%. Líklegasta skýringin er að mikil úrkoma fyrri hluta sumars hafi grandað ungum langt umfram það sem venjulegt er. Útreikningar á afföllum fullorðinna fugla 2017–2018 sýna að þau voru þau lægstu sem mælst hafa í viðkomandi landshlutum frá upphafi, 23% á Norðausturlandi og 12% á Suðvesturlandi.

Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2018 gefa nokkuð eindregnar niðurstöður en víðast hvar fjölgaði rjúpum 2017 til 2018. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2018 var metin 293 þúsund fuglar, en var 173 þúsund fuglar 2017. Framreiknuð stærð veiðistofns 2018 er 758 þúsund fuglar miðað við 649 þúsund fugla 2017. Í ljósi þess að stofnstærð er nær örugglega ofmetin í þessum útreikningum, jafnframt að viðkoma rjúpunnar hefur að öllum líkindum verið léleg bæði vestan lands og sunnan, þá er það skoðun Náttúrufræðistofnunar Íslands að varúðarreglan skuli gilda og miða reiknaða stofnstærð við viðkomuna líkt og hún mældist á Suðvesturlandi (hlutfall unga 68%) frekar en á Norðausturlandi (hlutfall unga 77%). Útreikningar Náttúrufræðistofnunar á ráðlagðri veiði upp á 67 þúsund fugla miðast við að áhrif veiða séu ekki önnur en þau að veiðiafföll bætast að fullu við náttúruleg afföll.

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2013 að rjúpnaveiðitíminn yrði 12 dagar á ári fyrir tímabilið 2013–2015, þetta var síðan framlengt 2016. Náttúrufræðistofnun leggur til að þetta verði með óbreyttum hætti á þessu ári.

Bréf til umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt greinargerð um veiðiþol rjúpnastofnsins 2018 (pdf, 3,3 MB)