Flóra Íslands

„Flóra Íslands“ er ítarlegasta og segja má eitt glæsilegasta rit sem út hefur komið um íslenskar plöntur. Í henni er öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst í máli og myndum auk þess sem fjallað er ítarlega um byggingu, lífsferla og þróun plantna. Markmið bókarinnar er að gefa heildstætt og myndskreytt yfirlit yfir allar æðplöntur í íslenskri flóru, útlit þeirra og sérkenni, æxlunarlíffræði, vistfræði, búsvæði, nytjar, hnattræna útbreiðslu og sögulegar heimildir um fundarstaði á Íslandi. Útbreiðslukort fylgir hverri tegund.

Efni bókarinnar byggist á áratugalangri vinnu höfunda sem eru meðal fremstu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Hörður Kristinsson hefur verið afkastamikill fræðimaður á sviði grasafræði í rúmlega hálfa öld og eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði, meðal annars „Íslenska plöntuhandbókin“ sem komið hefur út á mörgum tungumálum. Hörður var sérfræðingur við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands og forstöðumaður Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands þar til hann fór á eftirlaun árið 2007. Hörður var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf árið 2016.

Jón Baldur Hlíðberg teiknari myndskreytir bókina með þúsundum frábærra litmynda og teikninga. Náttúrumyndir Jóns Baldurs hafa birst í fjölda bóka, blaða og tímarita, bæði hér á landi og erlendis og er hann talinn meðal virtustu listamanna heims á þessu sviði myndlistar. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands hefur meðal annars unnið að rannsóknum á vistfræði hálendisgróðurs, uppruna íslensku flórunnar og áhrif loftslagsbreytinga. Frá aldamótum hafa rannsóknir hennar einkum beinst að landnámi plantna og þróun vistkerfa á nýju landi, á hraunum, jökulaurum og framan við hörfandi jökla. Þá hefur Þóra Ellen lengi tekið þátt í málefnum náttúruverndar á Íslandi. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf árið 2005.

Saman flétta höfundarnir saman frábært verk og einstaklega fallegt sem ylja mun sérhverjum unnanda íslenskrar náttúru um hjartarætur. Bókin er ætluð fræðimönnum og almenningi og er hugsuð sem uppsláttarrit með fjölbreyttum fróðleik.