Ný og endurskoðuð landupplýsingagögn gerð aðgengileg

Fyrr á árinu voru gögnin birt í kortasjám stofnunarinnar, Vistgerðir og mikilvæg fuglasvæði á Íslandi og Sérstök vernd náttúrufyrirbæra en nú eru landupplýsingagögn aðgengileg í lýsigagnagátt og gátt til niðurhals.

Landvistgerðir á vistgerðarkortinu byggja að mestu leyti á fjarkönnun og eru gögnin á TIFF-formi (rastaformi). Landupplýsingagögn fyrir sérstaka vernd eru unnin í ArcMap og eru þau á geodatabase- og þekjuformi (gdb og shp). Frekari upplýsingar um innihald, gerð og nákvæmni gagna má finna í lýsigögnum fyrir landvistgerðir og sérstaka vernd.

Gögnin eru gjaldfrjáls en við niðurhal þarf að samþykkja skilmála ríkisstofnana sem gilda um afnot rafrænna gjaldfrjálsra gagna.

Margir hafa beðið eftir þessum landupplýsingagögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands enda eru þau afar mikilvæg í tengslum við margs konar skipulagsvinnu og áætlanagerð. Þá eru gögnin ekki síður mikilvæg fyrir náttúruvernd, fræðslu og upplýsingar um náttúru Íslands. Vonast stofnunin til þess að sem flestir hafi gagn og ánægju af þessum landupplýsingum. Notendur eru hvattir til að senda ábendingar og athugasemdir á lysigogn@ni.is og aðstoða þannig við að gera gögnin enn betri.