Óvænt birkifrjó í lofti

Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl s.l., blésu sterkir vindar aust-suð-austan frá Evrópu og barst með þeim ryk sem ættað er jafnvel alla leið frá Sahara. Þennan dag, og daginn eftir, barst nokkuð ryk í gildrur Náttúrufræðistofnunar Íslands, bæði í Garðabæ og á Akureyri, en einnig talsvert magn af frjókornum. Þar var einkum um að ræða frjókorn af birkitrjám sem vaxa í Evrópu og jafnvel Rússlandi. Magnið sem mældist var á við góðan frjódag á Íslandi. Á Akureyri fór birkifrjótala yfir 130 frjó/m3 og í Garðabæ fór hún í 210 frjó/m3. Það sama hefur gerst tvisvar áður eftir að mælingar hófust, það er 7.–11. maí 2006 og 22.–24.apríl 2014.

Síðustu daga í apríl hefur gróður tekið verulega við sér, bæði sunnanlands og norðan heiða. Á Akureyri er ösp farin að mælast í miklu magni og er hún að byrja að mælast í Garðabæ. Asparfrjó geta valdið ofnæmi en eru ekki talin skæð. Íslenska birkið þroskast síðan hratt og má búast við frjóum af því á næstu vikum.