Lúsmý nýtur góðs af góðviðrinu

Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið fylgst með framvindu lúsmýs og upplýsinga safnað. Dregist hefur að koma fróðleik á framfæri þar sem treglega gekk að finna tegundinni fræðiheiti. Þegar tegundarheiti liggur ekki fyrir er ómögulegt að afla upplýsinga um útbreiðslu og lífshætti. Í Evrópu eru skráðar um 570 tegundir lúsmýs, flestar illþekkjanlegar. Nú er niðurstaða loks fengin og ber lúsmýið okkar heitið Culicoides reconditus. En þar með voru ekki allar hindranir að baki því svo vill til að tegund þessi er illa kynnt og litlar sem engar upplýsingar um lífshætti hennar að hafa. Þær upplýsingar sem liggja fyrir hafa nú verið teknar saman ásamt öðrum fróðleik.

Undanfarið hefur mikið verið leitað til Náttúrufræðistofnunar eftir upplýsingum um lúsmýið en ekki verið hægt að sinna því á sama tíma og legið var yfir gögnum til að koma á þau skikk. En nú liggur fyrir samantekt sem hefur verið birt á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Þar má lesa fróðleik um tegundina lúsmý og frekari fróðleik um lúsmýsætt.