Surtseyjarleiðangur jarðfræðinga 2019

Leiðangur jarðfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn 18.–22. júlí í kjölfar líffræðileiðangurs. Með í för voru sérfræðingar frá Íslenskum Orkurannsóknum, Háskóla Íslands, Matís, Landmælingum Íslands og Háskólanum í Bergen, ásamt landverði frá Umhverfisstofnun.

Landmælingar og þrívíddarmyndataka

Fastmerki í eyjunni voru mæld og tengdi við landshnitakerfið. Einnig var hæsti punktur eyjunnar mældur og reyndist hann vera 154,55 m y.s. í ISH2004. Þá voru mæld flögg sem sett voru út vegna þrívíddarmyndatöku.

Flygildi var notað til að taka mikinn fjölda loftljósmynda af yfirborði Surtseyjar, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með myndatökumann í kring um eyjuna. Myndirnar skarast hver við aðra og verða notaðar til að útbúa nákvæmt þrívíddarlíkan af eyjunni. Stefnt er að því að endurtaka leikinn síðar og með því að bera saman líkönin verður hægt að sjá mun nákvæmar en áður hvar og hvernig eyjan rofnar.

Jarðhiti á yfirborði

Jarðhiti á yfirborði í Surtsey er nú bundinn við sprungur í móbergi í gjóskubunkum Surtseyjar. Hitastig var mælt í öllum þekktum sprungum með hitaútstreymi. Hæsti hiti í Austurbunka mældist 93,1°C, en 99,3°C í Vesturbunka. Hiti í Vesturbunka hækkaði um 10° að jafnaði eftir jarðskjálfta vorið 2017. Þar hefur kólnað nokkuð síðan, en þó er hitastig enn að jafnaði nokkuð hærra en var fyrir 2017.

Við skjálftann 2017 myndaðist sprunga við mörk hrauns og móbergs í Surtungi. Sprungan sást á yfirborði sem röð niðurfalla í vindbornum sandi. Þar sem sást í hraun undir sandinum mældist 10 cm gliðnun. Sprungan var nú könnuð aftur og reyndist hluti niðurfallanna horfin í sand, en önnur voru enn sýnileg. Ekki hefur orðið frekari hreyfing á þessari sprungu.

Hitamælingar og sýnataka í borholum

Hitastig á mismunandi dýpi var mælt í borholum sem boraðar voru 1979 og 2017. Tilgangur þeirra er að varpa ljósi á eðli jarðhitakerfisins í Surtsey. Mælingarnar sýna að engar merkjanlegar breytingar hafa orðið á jarðhitakerfinu frá því það var mælt 2018, ári eftir borun. Hámarkshiti í borholu frá 1979 (SE-01) var 141°C á 100 m dýpi árið 1980, en hefur farið hægt lækkandi og reyndist nú vera 123,6°C á 100 m dýpi. Í holu sem var boruð á ská inn undir gíginn Surt árið 2017 (SE-03) var hámarkshiti nú 138°C á 119 m dýpi undir yfirborði.

Vatnssýni voru tekin af mismunandi dýpi í tveimur borholum í þeim tilgangi að skilja betur þau efnahvörf sem verða milli vatns og bergs við mismunandi hita og þrýsting. Sýni voru tekin á allt að 280 m dýpi undir yfirborði.

Eftir að borað var í Surtsey árið 2017 var tilraunahylkjum komið fyrir í einni holunni til þess að fylgjast með virkni og vexti örvera neðanjarðar. Þessi hylki voru nú fjarlægð og verða rannsökuð nánar, en nýjum tilraunahylkjum komið fyrir.

Örverur

Sérútbúnum loftsugum var komið fyrir á fimm völdum stöðum á eyjunni til þess að safna örverum í lofti. Þá voru sóttir steinar sem var komið fyrir dauðhreinsuðum ári áður. Tilgangur þessa er í fyrsta lagi að skilgreina fjölbreytileika og uppruna örverusamfélaga í andrúmslofti og rannsaka samband fjölbreytileikans við eldfjallasvæði. Í öðru lagi verður rannsakað hvernig lífeðlisfræðilegt- og efnaskiptaástand loftborinna baktería hafa áhrif á getu þeirra til að nema land í tiltækum vistum á eldfjallasvæðum.