Vel sótt Vísindavaka

Á Vísindavöku kynnti vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknaverkefni sín fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt á fjölda sýningarbása. Náttúrufræðistofnun Íslands vakti athygli á vísindasöfnum sínum og mikilvægi þeirra fyrir fræðimenn sem geta notað safngripi til ýmiss konar rannsókna, meðal annars erfðafræði- og eiturefnarannsókna.

Sýndir voru nokkrir sjaldgæfir safngripir, til dæmis hvítur hrafn (albinói), sá eini í safninu en hann er frá árinu 1959 og ekki er vitað til að fleiri slíkir hafi fundist hér á landi eftir það. Einnig var sýndur mórauður hrafn en um tíu slíkir eru til og reiknað er með að nokkrir slíkir lifi úti í náttúrunni. Til samanburðar þessum fuglum voru nokkur eintök af hröfnum í hefðbundnum svörtum lit; sitjandi hrafn, fljúgandi hrafn og hrafnar settir upp til varðveislu í vísindasöfnum. Sérstaka athygli vakti fugl sem unnið var að uppsetningu á og gestir máttu handfjalla.

Auk framangreinds voru sýnd egg hrafns og heiðlóu og athygli vakin á svipaðri stærð eggjanna þó mikill stærðarmunur sé á fuglunum sjálfum. Einnig var stillt saman hrafni og glókolli, stærsta og minnsta spörfugli landsins. Þá var sýnd beinagrind úr hrafni og greint frá mikilvægi þess að varðveita bein fuglategunda, til dæmis vegna fornleifafræðirannsókna. Að lokum voru á sýningunni veggspjöld með upplýsingum um vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar Íslands og ljósmyndir til skrauts.

Að neðan má sjá myndir frá bás Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Efni fyrir börn