Jarðfræðikortasjá Náttúrufræðistofnunar Íslands

Í jarðfræðikortasjá er hægt að skoða mismunandi þekjur yfir jarðfræðileg fyrirbæri og hverri jarðmyndun fylgja upplýsingar sem birtast þegar smellt er á fyrirbærið í kortaglugga. Í „bókamerkishnappi“ er flýtileið þar sem hægt er að velja uppsett jarðfræðikort fyrir berggrunn, höggun, jarðhita og Vesturgosbeltið.

Snemma á þessu ári gerðu umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands með sér samning um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu og veitti ráðuneytið fjármagn til verkefnisins. Í því er unnið að nýju jarðfræðikorti fyrir Vesturgosbeltið sem byggir á korti Sveins Jakobssonar sem var nær fullklárað þegar hann féll frá sumarið 2016. Gert er ráð fyrir að það kort verði tilbúið fyrir lok ársins 2020 og verða gögnin þá birt í jarðfræðikortasjánni og þau gerð aðgengileg á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Á árinu 2020 bætast að auki fleiri jarðfræðikort stofnunarinnar inn í kortasjána, má þar nefna jarðfræðikortblöð í mælikvarða 1:250.000, nýtt jarðfræðikort af Austurlandi (1:100.000) og kort yfir nútímahraun (1:50.000).

Kortasjáin Jarðfræði Íslands er sú fimmta í röðinni af kortasjám sem stofnunin hefur opnað á vefnum. Kortasjár eru einfaldar í notkun og auðvelda skoðun á náttúrufari landsins. Auðvelt er að uppfæra og leiðrétta gögn í kortasjá sem gerir þær áreiðanlegri en prentuð kort. Gagnlegar leiðbeiningar um notkun fylgir hverri kortasjá. Gögn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem birt eru í kortasjám eru aðgengileg á niðurhalssíðu stofnunarinnar.