Tillaga að fyrstu vatnaáætlun Íslands 2022–2027

Vatnaáætlun er unnin á grundvelli laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, en þau hafa innleitt nýja nálgun í vatnsvernd hér á landi. Lögunum er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Í vatnaáætlun er sett fram stefna stjórnvalda í vatnamálum og felur hún meðal annars í sér kortlagningu gagna, flokkun og greiningu á ástandi vatns og eiginleikum þess auk vöktunar og aðgerða til að ná góðu ástandi vatns. Vatnaáætlun fylgir aðgerðaáætlun, þar sem settar eru fram aðgerðir til að tryggja gott ástand vatns, og vöktunaráætlun, þar sem markmiðið er meðal annars að samræma vöktun á vatni um allt land. Vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun gilda í sex ár í senn, sú fyrsta frá upphafi árs 2022 til ársloka 2027.

Tillögurnar eru kynntar á vef Umhverfisstofnunar en þær liggja einnig frammi til kynningar á skrifstofu stofnunarinnar. Ábendingar og athugasemdir skal senda á ust@ust.is merkt „Stjórn vatnamála“ eða til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir eru sex mánuðir eða til og með 15. júní 2021. 

Vatnaáætlun
Aðgerðaáætlun
Vöktunaráætlun
Umhverfisskýrsla