Hrafnaþing: Áhrif silfurbergs frá Helgustöðum í Reyðarfirði á þróun náttúruvísindanna

26.01.2021
Skýringarmynd úr riti Bartholins sem sýnir geislagang frá punkti á blaði, gegnum silfurbergskristal og til auga.

Skýringarmynd sem sýnir geislagang frá punkti á blaði, gegnum silfurbergskristal og til auga. Myndin er úr riti Rasmusar Bartholins, Experimenta crystalli Islandici disdiaclastici quibus mira et insolita refractio detegitur (Tilraunir á íslenskum kristöllum sem leiddu til uppgötvunar undarlegs og merkilegs ljósbrots).

Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar Íslands verður haldið miðvikudaginn, 27. janúar. Kristján Leósson vísindamaður flytur erindið „Áhrif silfurbergs frá Helgustöðum í Reyðarfirði á þróun náttúruvísindanna“.

Silfurberg frá Íslandi gegndi lykilhlutverki í þróun náttúruvísinda, allt frá 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Stórir og tærir silfurbergskristallar sem fundust við Helgustaði í Reyðarfirði voru ómissandi hjálpartæki í rannsóknum í kristallafræði, efnafræði, eðlisfræði og fleiri sviðum yfir 250 ára tímabil. Silfurbergskristallar frá Íslandi voru einnig nýttir í margs konar mælitækjum fyrir matvælaiðnað og efnaframleiðslu, í læknisfræðilegum tilgangi, í fjarskiptabúnaði og fleira. Saga íslenska silfurbergsins var að mestu óþekkt þar til Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur hóf rannsóknir á henni árið 1995. Þeirri vinnu hélt hann áfram þar til hann lést árið 2020.

Vegna takmarkana í tengslum við Covid-19 verður erindið eingöngu flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu. Það hefst kl. 15:15 og því lýkur um kl. 16:00. 

Fyrirlesturinn á Youtube