Lífríki Hornvíkur kannað í mars

Þrisvar á ári stendur Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir vettvangsferðum í friðlandið á Hornströndum til að kanna ástand lífríkis. Slík ferð var farin dagana 19.–30. mars og var áhersla lögð á að fylgjast með viðkomu refa og kanna stöðuna hjá bjargfuglum.

Í upphafi ferðar var vorlegt yfir að líta að Horni, hiti um 8°C og snjór að mestu tekinn upp á láglendi. Það breyttist þó fljótt því fljótlega brast á hvassviðri með frosti og snjókomu og fór kuldi niður í -9°C. Ösla þurfti djúpa skafla á hverjum degi en snjórinn var léttur í sér þannig að hann hélt hvorki fólki á snjóþrúgum né refum með sérbúna fætur til að ganga í snjó. Af og til birti til. Undir lok ferðar hafði vind lægt, hiti kominn í 5°C og sjó tekið að leysa aftur.

Refir

Refir sáust alla dagana. Fylgst var vel með svæðinu meðfram sjávarkambinum til norðurs, framundir Horn, og að Skipakletti til suðurs. Einnig var farið upp í bjargið eftir að fór að snjóa, til að athuga með refaferðir og hvort fugl væri sestur upp.

Flestir refir fara daglega í fjöruna í ætisleit og til að tryggja sér aðgangsrétt að svæðinu. Í fyrstu fannst lítið ætilegt fyrir refi í fjörunni en brim skolaði síðan ýmsu á land, þar á meðal þorskhausum sem héngu á hryggjarliðum, mögulega leifar frá landselum sem voru áberandi í öldurótinu. Einnig fundust ferskar leifar af ritu og fýl en þær tegundir eru í miklu uppáhaldi hjá refum á þessum slóðum og voru í miklum fjölda að setjast upp í björgin. Í heildina sáust 12–13 dýr, öll mórauð, en líklega voru allt að 16 dýr á svæðinu miðað við ummerki í bjarginu.

Óðul í austurhluta Hornvíkur eru einungis um 1–2km2 að stærð og því eru mörg óðalspör að undirbúa tímgun á tiltölulega litlu svæði. Tilhugalíf og pörun stóðu sem hæst. Þó sáust sum dýr ein á ferð og tvö báru þess greinileg merki að vera geld. Í fyrri ferðum á svæðið hefur pörun að jafnaði verið í hámarki 20.–24. mars en nú virtust flest pörin vera seinna á ferðinni. Þannig mökuðust að minnsta kosti þrjú pör 29.–30. mars sem þýðir að yrðlingar þeirra fæðast ekki fyrr en í lok maí. 

Þar sem mökun fór fram svo seint sem raun bar vitni má ætla að læður muni gjóta seint í vor. Þó bendir allt til þess að öll óðul verði setin en gotstærð verður líklega ekki yfir meðallagi, miðað við það fæðuframboðið þann tíma sem dvalið var að Horni. Það mun skýrast þegar farið verður á vettvang til athugunar á ábúð og gotstærð refa á svæðinu í sumar. 

Annað dýralíf

Af fuglum sást ekki mikið í fyrstu. Á siglingarleiðinni til Hornvíkur sáust aðallega fýlar og nokkrir svartfuglar voru út af Rit og Stapa við Aðalvík. Í Hornvík var lítið sem ekkert af svartfugli á sjónum en stórir rituflokkar voru á ferð og flugi. Fýlar voru sestir upp í klettum fyrir ofan húsin að Horni og halda þeir líklega til þar yfir veturinn að mestu leyti. Tveir til þrír hrafnar voru á flugi undir hlíðum Miðfells og í nágrenni Hornbæja, þrír til viðbótar sáust við Skipaklett og tveir í Miðdal. Hópur af snjótittlingum, um það bil 30–40 fuglar, voru áberandi á svæðinu. Við ströndina voru um 12 straumendur, um 40 æðarfuglar, nokkrir hvítmáfar og einn svartbakur. Af og til heyrðist í lómi en hann sást ekki, enda skyggni oftast lítið sem ekkert.

Landselir sáust nánast daglega nálægt ströndinni, þrír til fimm talsins, og stundum lá einn á steini við Horná þar sem selir sjást gjarnan.

Kvikmyndataka

Með í för var þriggja manna hópur frá bresku sjónvarpsstöðinni BBC sem var að safna efni í dýralífsþátt. Teknar voru kvikmyndir af dýrum á svæðinu og fylgst með tveimur mórauðum dýrum, stegg og læðu, sem virtust vera par. Bæði voru mjög spök og fóru sína leið niður í fjöru og aftur upp, án þess að bregðast við nærveru fólksins. Bæði litu vel út og virtust heilbrigð að sjá, með fallegan silfraðan feld. Leiðangurinn í Hornvík að þessu sinni var kostaður af breska sjónvarpinu og skipulag var á höndum ferðaskrifstofunnar Borea Adventures.

Plast hreinsað

Nokkuð af plasti rekur á fjörur á Hornströndum og í vettvangsferðum er yfirleitt reynt að týna það upp. Í lok ferðar hafði safnast saman plast sem fyllti eina bláa síldartunnu, sem var meðal þess sem fannst, auk nánast ónotaðs nælonnets. Plast hefur fundist í refasaur frá Hornströndum og í meltingarfærum refa, sjófugla og sjávarspendýra frá öðrum landsvæðum. Þó viðleitni leiðangursfólks hafi ef til vill ekki mikið að segja ein og sér, þá er mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum til að lágmarka plast í umhverfinu því það getur verið skaðlegt lífríki.