Stofnmat fyrir íslenska rjúpnastofninn

Vöktun veiðistofna er mikilvæg til að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra. Rjúpa er ein vinsælasta veiðibráð á Íslandi en rjúpnastofninum hefur hnignað frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar. Því er mikilvægt að vel sé fylgst með stofnþróun rjúpu.

Árið 2013 var farið af stað með að þróa líkan til að meta stærð íslenska rjúpnastofnsins. Þetta var samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Háskóla Íslands. Erla Sturludóttir, þá doktorsnemi við HÍ, sá um verkið. Unnið var út frá nýrri aðferðafræði þar sem nokkrir ólíkir stofnþættir rjúpunnar eru metnir samtímis en þannig fæst nákvæmara mat á stofnstærð og afföll. Líkanið náði einungis til Norðausturlands.

Erla Sturludóttir við Landbúnaðarháskóla Íslands tók að sér að uppfæra stofnlíkan fyrir rjúpu þannig að það nái til rjúpnastofns alls landsins. Í ljós kom að betra er að meta stofnstærð fyrir hvern landshluta fyrir sig og leggja niðurstöður saman til að fá mat fyrir allt landið heldur en að meta stofnstærð fyrir allt landið með sameinuðum gögnum.

Niðurstöðurnar frá hverjum landshluta frá tímabilinu 2005–2018 voru lagðar saman til að fá heildarstofnstærðarmat fyrir allt landið í upphafi veiðitíma og var það hæst um 391.000 (95% ÖB: 251.000–792.000) fuglar árið 2005 en lægst 216.000 (95% ÖB: 138.000–437.000) fuglar árið 2012. Það samsvarar því að meðalveiðiafföll hafi verið um 0,19 (95% ÖB: 0,09–0,29) á tímabilinu.

Ljóst þykir að líkanið gefi nákvæmara mat en sú einfalda aðferð sem áður var notuð til að meta stofnstærð rjúpunnar. Líkanið er þó ekki gallalaust því það getur verið erfitt að fá mat á stuðla líkansins og efri mörk öryggisbils geta verið óraunhæf þegar veiðiafföll eru lág. Þá er það mun flóknara í framkvæmd og notkun en einfalda líkanið. Möguleiki er á að bæta stofnmatið, þ.e. að minnka bjaga og óvissu í matinu á lýðfræðilegum þáttum rjúpunnar með því að bæta við gögnum frá radíómerktum fuglum.

Stofnmat fyrir íslenska rjúpnastofninn, Rit LbhÍ nr. 141.

Statistical analysis of trends in data from ecological monitoring, doktorsritgerð Erlu Sturludóttur.