Gróðureldar í Heiðmörk

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið gróðurskemmdir í Heiðmörk eftir elda sem loguðu þar 4.­–5. maí. Svæðið sem brann var 56,5 ha að flatarmáli, einkum gamlar lúpínubreiður með ýmsum trjátegundum.

Svæðið sem brann er við Hnífhól í suðvesturhluta Heiðmerkur, milli Löngubrekkna og Hjalla, rúma 2 km norðaustur af Búrfelli. Gamlar lúpínubreiður þöktu meginhluta svæðisins en í þeim höfðu verið gróðursettar ýmsar trjátegundir, svo sem stafafura og birki, á tæpt 40 ha svæði. Rúmir 10 ha af brunna landinu voru lúpínubreiður sem ekki hafði verið gróðursett í. Þá brunnu um 4 ha af náttúrulegum gömlum birkiskógi. Svæðið var illa útleikið eftir brunann og óbrunnir blettir í gróðursverðinum voru fáir. Gera má ráð fyrir að gróður á brunna svæðinu í Heiðmörk verði nokkurn tíma að jafna sig, einkum trjágróður og lyngtegundir. Hjá sumum tegundum getur bruni valdið vissri endurnýjun, til dæmis sleppa grös, starir og blómjurtir oft vel og vaxa aftur upp af rót. Sem dæmi má nefna að gróðureldar í Norðurárdal í Borgarfirði í maí 2020 fóru illa með gróður en í ágúst sama ár virtist svæðið vera að byrja að jafna sig. 

Smádýralíf í Heiðmörk er afar fjölskrúðugt vegna ríkulegs og fjölbreytts gróðurfars. Gera má ráð fyrir að bruninn hafi haft mikil áhrif á smádýr á svæðinu því jarðvegur var þurr og gæti svörður hafa kolast nokkuð niður. Á þessum tíma er smádýralífið viðkvæmt, margt smádýrið enn á dvalastigi í jarðvegi, jafnt fullþroska dýr, egg, lirfur og púpur. Það á mikið verk fyrir höndum að koma til baka, í hvaða mynd það verður endurheimt er erfitt að segja til um. Samfélag þeirra gæti tekið breytingum.

Algengustu fuglarnir á svæðinu eru smádýraætur eins og skógarþrestir, hrossagaukar og þúfutittlingar sem verpa þar í tuga eða hundraða tali. Hætt er við að talsvert af hreiðrum fugla sem verpa snemma hafi misfarist. Þeir munu eiga erfitt uppdráttar á brunna svæðinu í ár en veðurfar og þó einkum úrkoma á næstu vikum mun skera úr um það hvort eitthvað varp verði þarna í sumar. Langtímaáhrif á fuglalíf verða væntanlega óveruleg.

Hagamýs eru algengar og útbreiddar í Heiðmörk. Þegar bruninn varð var tímgun nýhafin og músakerlingar nýgotnar með unga í holum sínum. Mýs sem náðu að forða sér undan eldinum gætu átt möguleika á að tímgast aftur því þær eru móttækilegar fljótlega eftir got. Áhrif brunans ættu ekki að skaða stofninn til langs tíma.

Nánari upplýsingar um gróðureldana í Heiðmörk