Rjúpnatalningar 2021

28.05.2021
Fullorðinn óðalskarri á köldum maímorgni 2021
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Fullorðinn óðalskarri á köldum maímorgni 2021.

Rjúpnatalningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2021 er lokið. Rjúpum fækkaði í öllum landshlutum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er fækkun hafin en þar var hámark vorið 2020. Á Norðvesturlandi og Norðausturlandi var hámark 2018 og 2019 og þar hefur fækkun varað í tvö til þrjú ár. Á Suðurlandi hefur rjúpum fækkað í fjögur ár en þar var hámark vorið 2017. Á Austurlandi var hámark 2014 og þar hefur rjúpum fækkað jafnt og þétt í 7 ár.

Reglubundnar 10–12 ára langar sveiflur í stofnstærð hafa einkennt íslenska rjúpnastofninn. Þessar sveiflur hafa breyst í kjölfar friðunar 2003 og 2004 og samdráttar í veiði frá 2005 og er nú mun styttra milli hámarka en áður og þetta er sérstaklega áberandi á Norðausturlandi. Miðað við ástand stofnsins frá síðustu aldamótum er rjúpnafjöldinn 2021 undir meðallagi alls staðar nema á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á stofnbreytingum mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á afföllum rjúpna 2020–2021 og varpárangri í sumar.

Fréttatilkynning