Átak í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja

01.06.2021
Friðland að Fjallabaki. Horft yfir Dalbotn suður af Hattveri.
Mynd: Kristján Jónasson

Friðland að Fjallabaki. Horft yfir Dalbotn suður af Hattveri.

Undirritaður hefur verið rammasamningur um fimm ára átak í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja. Það voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þorkell Lindberg Þórarinsson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Árni Magnússon forstjóri Íslenskra orkurannsókna sem undirrituðu samninginn, sem er framhald rammasamnings um sama verkefni sem undirritaður var í desember 2018 og tók til áranna 2019 og 2020.

Í tíð fyrri rammasamnings var lokið við að kortleggja berggrunn Austfjarða og Vestur-gosbeltisins, auk þess sem lokið var við berggrunnskort af Mið-Íslandi. Að auki var mikilvægum áföngum náð í kortlagningu Eyjafjarðarsvæðisins, Norðausturlands og Mið-Suðurlands.

Samkvæmt nýja samningnum munu stofnanirnar tvær vinna náið saman að kortlagningu berggrunns landsins á næstu fimm árum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur 100 milljónir króna til verksins og stofnanirnar hluta af rekstrarfé sínu. Að auki er gert ráð fyrir að öðrum aðilum verði gert kleift að styrkja einstök kortlagningarverkefni.

Lögð verður áhersla á að ljúka kortlagningu Mið-Suðurlands og Norðausturlands og er stefnt að því að gera hagaðilum kleift að styrkja vinnuna svo hægt sé að klára kortin sem fyrst. Byrjað verður á kortlagningu nokkurra nýrra svæða, það er Snæfellsness, valinna svæða á Suðausturlandi, svæðisins milli Norðurgosbeltisins og Austfjarða, svæðisins milli Mjóafjarðar og Vattarfjarðar á Vestfjörðum og Glámusvæðisins. Kortlagningu Eyjafjarðarsvæðisins verður haldið áfram á tímabilinu og í lok þess mun svæðið verða nánast fullkortlagt.