Ólafur Karl Nielsen sæmdur riddarakrossi

17.06.2021
Mynd: Daníel Bergmann

Ólafur Karl Nielsen við fálkarannsóknir.

Í dag, 17. júní, sæmdi forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, 14 Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þar á meðal var Ólafur Karl Nielsen vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands sem var sæmdur orðunni fyrir rannsóknir á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði.

Ólafur Karl Nielsen er mikilvirkur fræðimaður á sviði vistfræði og eftir hann liggja um 130 ritsmíðar á því sviði. Hann lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1978 og doktorsprófi í vistfræði frá Cornell University árið 1986 og fjallaði doktorsritgerð hans um stofnvistfræði fálka. Eftir námið starfaði hann sem sérfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands á árunum 1986–1988, kenndi líffræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 1987–1988, starfaði sem sérfræðingur við Veiðistjóraembættið árið 1993 og eftir það, síðan 1994, hefur hann starfað sem sérfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ólafur Karl fékk ungur að árum áhuga á fuglum og beindist athygli hans snemma að fálkum. Átján ára gamall fór hann í rannsóknarleiðangur með Finni Guðmundssyni fuglafræðingi, meðal annars til að kanna tengsl fálka og rjúpu, og sjálfur hóf hann rannsóknir á þessum tegundum árið 1981. Þær hafa staðið yfir samfellt síðan og urðu að ævistarfi hans en rannsóknirnar felast í að vakta og rannsaka vistfræði og veiðiþol rjúpnastofnsins, tengsl heilbrigðis og stofnbreytinga hjá rjúpu, stofnbreytingar fálkastofnsins og samspil fálka og rjúpu.

Náttúruvernd hefur löngum verið Ólafi Karli hugleikin og hefur hann meðal annars tekið þátt í störfum Fuglaverndar, þar sem hann er nú formaður. Hann hefur auk þess vaktað fuglalíf á Reykjavíkurtjörn fyrir Reykjavíkurborg með hléum í tæpa fimm áratugi, eða síðan 1973.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur Ólaf Karl vel að hinni íslensku fálkaorðu kominn og óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.