Dagur íslenskrar náttúru

16.09.2021
Heiðlóa
Mynd: Erling Ólafsson

Heiðlóa.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert. Í tilefni hans er fólk hvatt til að fagna íslenskri náttúru og efla tengslin við hana af ábyrgð og virðingu.

Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2011. Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands vinna sérfræðingar að því flesta daga ársins að rannsaka og skoða náttúru Íslands og því er það stofnuninni fagnaðarefni að henni sé tileinkaður sérstakur heiðursdagur. Tilgangur dagsins er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, þeim auðæfum sem í henni felast og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Undanfarið hafa ítrekað borist fregnir af illri meðferð á villtum fuglum sem hafa verið fangaðir. Náttúrufræðistofnun harmar slíka hegðun og bendir á að óheimilt er að halda villt dýr. Stofnunin hvetur alla til að nota dag íslenskrar náttúru til að gera sér dagamun og njóta náttúrunnar með virðingu og velferð hennar að leiðarljósi!