Arnþór Garðarsson fuglafræðingur látinn

07.01.2022
Arnþór Garðarsson prófessor við Háskóla Íslands tekur á móti heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Mynd: Águst Úlfar Sigurðsson

Arnþór Garðarsson tekur á móti heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2007.

Arnþór Garðarsson prófessor emerítus við Háskóla Íslands lést á nýársdag, 83 ára að aldri. Arnþór var tengdur Náttúrufræðistofnun Íslands í 70 ár eða allt frá unglingsárum, vann þar lengi  og átti í samstarfi við stofnunina allt til æviloka. Fáum vikum fyrir andlátið hann sendi grein í fuglatímaritið Blika sem bíður nú birtingar.

Arnþór Garðarsson fæddist í Reykjavík 6. júlí 1938. Fuglar heilluðu hann frá unga aldri en hann kynntist fjölbreyttu fuglalífi við Mývatn þegar hann var þar í sveit sem barn og eins á æskuslóðum á Seltjarnarnesi þar sem hann kynntist nágranna sinum Árna Friðrikssyni, fiskifræðingi sem vakti áhuga hans á lífríki fjörunnar. Arnþór komst einnig ungur í kynni við Finn Guðmundsson, eina fuglafræðing landsins sem starfaði á Náttúrugripasafninu, eins og Náttúrufræðistofnun Íslands hét á þeim tíma. Arnþór hóf skipulegar athuganir á fuglalífi þegar á fermingaraldri og skrifaði sína fyrstu vísindagrein sína 17 ára að aldri, ásamt Agnari Ingólfssyni, en hún fjallaði um fuglalíf á Seltjarnarnesi og birtist í Náttúrufræðingnum árið 1955. Þar birtust einnig fuglateikningar Arnþórs sem var mjög listfengur og myndskreytti margar greinar sínar.

Arnþór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957, B.S.-prófi í dýrafræði frá Háskólanum í Bristol í Englandi árið 1962 og doktorsprófi frá Berkleyháskóla í Kaliforníu árið 1971. Doktorsritgerð hans fjallaði um stofnsveiflur rjúpunnar og dvaldi hann langdvölum í Hrísey við rannsóknir sínar. Samhliða námi starfaði Arnþór sem sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands árin 1962–1963 og 1965–1973.

Arnþór var einn af þeim sem komu á fót kennslu og rannsóknum í líffræði við Háskóla Íslands og var hann skipaður prófessor í dýrafræði 1. janúar 1974. Kennslugreinar hans við voru dýrafræði hryggdýra og hryggleysingja og sérsvið hans, fuglafræði. Á starfsferli sínum stundaði Arnþór margvíslegar rannsóknir á náttúru landsins og hafði hann óbilandi áhuga á lifandi náttúru, einkum fuglum og búsvæði þeirra. Hann hóf rannsóknir á vistfræði Þjórsárvera árið 1971 og stýrði hópi rannsóknarmanna sem vann þar til ársins 1976. Þar naut hann víðtækrar þekkingar á plöntum og samspili gróðurs og dýra sem hann byrjaði að fást við í rjúpnarannsóknunum. Arnþór átti ásamt Agnari Ingólfssyni einnig stóran þátt í rannsóknum á fjörum og grunnsævi. Hann var frumherji í rannsóknum á vistfræði Breiðafjarðar og „bráðabirgðaskýrsla“ hans um fugla og seli á Breiðafirði sem hann vann á vegum Náttúrufræðistofnunar og út kom 1973 sýnir óvenjulegt innsæi og leiddi hann út í fjölbreyttar rannsóknir á sjófuglum, þó aðallega á síðari hluta starfsævinnar. Í millitíðinni (1975) sneri Arnþór sér að rannsóknum á fuglalífi Mývatns sem þróuðust fljótlega í að að kanna flesta stofna vatnaskordýra og anda við vatnið, ásamt reglubundnum mælingum á ýmsum umhverfisþáttum.

Rannsóknir Arnþórs á sjófuglastofnum hófust með víðtækum talningum og merkingum í skarfabyggðum. Voru sjófuglarannsóknirnar fyrirferðamiklar á starfsævi hans og  lagði hann mat á stofnstærð  allra bjargfugla á Íslandi og breytingar á þeim. Hann hóf þegar árið 1971 að nota flugvélar til að kanna útbreiðslu fugla og þróaði smám saman aðferðir sem hann beitti af mikilli hugkvæmni. Arnþór hafði að lokum flogið yfir allar helstu sjófuglabyggðir landsins og myndaði þær úr lofti. Hann lét ekki dvínandi heilsu og þrek á sig fá og lauk talningum í fýlabyggðum  árið 2015, þá 77 ára að aldri.

Arnþór var ötull náttúruverndarmaður og var í framvarðasveit þeirra sem fundu sig knúna til að  bregðast við vaxandi ánauð á náttúruperlum landsins, ekki síst Þjórsárverum og Mývatni. Hann formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags á árunum 1972–1976 og var gerður að heiðursfélaga þar 1998. Hann sat í Náttúruverndarráði um langt skeið og var formaður þess á árunum 1990–1996.

Eftir Arnþór liggja ótal greinar í erlendum og innlendum vísindaritum og hann var einnig ötull alþýðufræðari um náttúru landsins. Hann hlaut heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2007 fyrir ómetanlegt framlag til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands og frumkvöðlastarf í verndun íslensks votlendis.

Arnþór verður jarðsunginn frá Seljakirkju í Reykjavík fimmtudaginn 13. janúar.

Arnþór Garðarsson fuglafræðingur. Mynd tekin í námsferð líffræðinema 1976 við Flatey á Breiðafirði.
Mynd: Kristbjörn Egilsson

Arnþór Garðarsson. Mynd tekin í námsferð líffræðinema 1976 við Flatey á Breiðafirði.