Nýtt rit um útbreiðslu og líffræði agna í hafinu við Ísland

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út ritið „Útbreiðsla og líffræði agna (krabbadýr: Lophogastrida og Mysida) í hafinu við Ísland“ eftir Ólaf S. Ástþórsson og Torleiv Brattegard og er það númer 58 í ritröðinni Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Í ritinu er fjallað um krabbadýr af ættbálkunum Lophogastrida og Mysida (áður Mysidacea, agnir á íslensku) sem  safnað var í rannsóknaverkefninu Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE).

Meginmarkmið BIOICE-verkefnisins var að kanna magn og útbreiðslu dýralífs á hafsbotninum innan íslensku 200 mílna lögsögunnar. Ögnunum sem fjallað er um í ritinum var safnað með svokölluðum RP-sleða og síðan greint til tegunda og útbreiðsla, dýptardreifing og lífsferlar rannsakaðir í tengslum við umhverfisaðstæður eftir því sem gögn gáfu tilefni til. Alls voru tegundagreind 30.605 dýr sem fengust á 276 togstöðum á 20–3000 m dýpi. Dýrin tilheyrðu 50 tegundum og þar af voru 25 tegundir sem ekki höfðu áður fundist innan íslensku efnahagslögsögunnar og tvær af þeim nýjar fyrir vísindin. 

Útbreiðsla tegunda er skoðuð í tengslum við umhverfisþætti (hiti, selta, sjógerðir, dýpi) og fjallað um líffræði þeirra eins og gögnin gefa tilefni til. Niðurstöður eru einnig skoðaðar í ljósi fyrirliggjandi vitneskju um agnir á nálægum hafsvæðum. Hvað margar tegundanna varðar eru niðurstöðurnar sem hér eru birtar nánast þær fyrstu frá því að þeim var upphaflega lýst og því  verulegur þekkingarauki, ekki aðeins hvað varðar hafsvæðið umhverfis Ísland, heldur einnig í samhengi við víðáttumeiri svæði í Norður-Atlantshafi.

Útbreiðsla og líffræði agna (krabbadýr: Lophogastrida og Mysida) í hafinu við Ísland

Eldri útgáfur af Fjölriti Náttúrufræðistofnunar