Ný vísindagrein um útbreiðslu stormþular

Í lok síðustu viku kom út í vísindatímaritinu Biological Invasions grein eftir Paweł Wąsowicz og Torbjørn Alm sem fjallar um stormþul, Senecio pseudoarnica, sem er innflutt og harðger garðplanta sem víða breiðist hratt út.

Eitt af verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands er að fylgjast með útbreiðslu tegunda hér á landi, þar á meðal nýrra tegunda sem nema hér land. Stormþulur er æðplöntutegund af körfublómaætt með heimkynni í Norður-Ameríku og austurhluta Asíu. Tegundin var flutt til Íslands fyrir 1968 sem skrautplanta í garða. Til að byrja með varð stormþular ekki vart úti í náttúrunni en á síðustu árum hefur hans víða orðið vart með ströndum landsins.

Frekari rannsóknir á stormþul hafa leitt í ljós að hér á landi hefur tegundin farið í gegnum svokallaðan taffasa (e. lag-phase), sem þýðir að landnám fyrstu kynslóðar einkenndist af hægri útbreiðsluaukningu fyrstu áratugina. Nú er dreifingin hins vegar komin á stig veldisvaxtar þar sem útbreiðsla og útbreiðsluhraði margfaldast á stuttum tíma. Á meðan það stig varir verður stofnvöxtur stormþular líklega svo gott sem hömlulaus þangað til búsvæðið mettast. Stormþulur myndar stórar og þéttar breiður og því er hætta á að hann bæli annan gróður algjörlega niður, þannig getur tegundin haft veruleg og neikvæð áhrif á gróður við strendur landsins.  

Í greininni sem nú er komin út fjalla Paweł Wąsowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Torbjørn Alm prófessor við Arctic University Museum of Norway um útbreiðslu stormþular á norðurslóðum og kaldtempruðum svæðum Evrópu. Niðurstöður þeirra benda til þess að tegundin dreifist nú hratt út meðfram strandsvæðum Íslands og Noregs. Veldisvísislíkan skýrði vel fjölgun þekktra staða. Náttúruleg heimkynni stormþular líkjast mjög nýjum heimkynnum tegundarinnar á Íslandi og Noregi, bæði hvað varðar loftslag og umhverfisaðstæður, og það auðveldar henni að breiðast út. Líklegt er að stormþulur sé nú þegar það útbreiddur að útrýming tegundarinnar sé ómöguleg og frekari rannsókna er þörf til að leiðbeina um árangursríkar stjórnunaraðferðir.

Tengill á greinina: Senecio pseudoarnica Less. (Asteraceae): a new non-native species invading coastal areas in arctic and subarctic Europe