Skýrsla um útbreiðslu stafafuru í Steinadal

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út skýrslu um rannsóknir á útbreiðslu stafafuru í Steinadal í Suðursveit. Niðurstöður sýna að stafafura getur dreift sér hratt og á skilvirkan hátt um stór svæði í kringum skógræktarsvæði og að með tímanum dregur stafafura verulega úr líffræðilegum fjölbreytileika æðplantna. 

Staffura er ein vinsælasta trjátegundin sem notuð er í skógrækt á Íslandi, en þrátt fyrir það liggja nánast engar rannsóknir fyrir um áhrif hennar á umhverfið og dreifingamöguleika/-getu. Árið 2010 vann Hanna Björg Guðmundsdóttir B.Sc. verkefni í Steinadal þar sem hún mat útbreiðslu stafafuru. Niðurstöður hennar sýndu stóraukna mikla útbreiðslu sjálfsáinna stafafuruplantna auk þess sem þær gáfu vísbendingar um neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni svæðisins. 

Steinadalur er sérlega fýsilegur kostur til að rannsaka útbreiðslu og áhrif stafafuru á annan gróður og hugsanlega ágengni tegundarinnar. Skógræktarsvæðið er vel afmarkað landfræðilega, saga skógræktar á svæðinu er vel þekkt sem og útbreiðsla, hæð og þéttleiki sjálfsáinnar stafafuru á svæðinu til ársins 2011. Þá er gróðurfar í Steinadal fjölbreytt, allt frá ógrónu landi í misgróið og þroskað gróðurfar, auk þess sem landslag er mjög fjölbreytt. Þ og þar er að finna flatlendi, jökulaurar, fjalllendi og brekkur og víða eru leifar gróinna þykkra jarðvegslaga í dalnum. 

Með því að nota gögn úr fyrri rannsóknum Hönnu Bjargar frá árinu 2010 tókst vísindamönnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Austurlands og Háskóla Íslands að mæla dreifingarmöguleika stafafuru og áhrif hennar á líffræðilegan fjölbreytileika í Steinadal í Suðursveit. Kortlagning á útbreiðslu stafafuru árin 2010 og 2021 sýndi að útbreiðsla hennar hafði aukist um 856% og að stofnaukning hennar hafði verið um 673% á tímabilinu. Þá sýndu rannsóknir 2021 að aukin þekja stafafuru hefur dregið úr auðgi og fjölbreytni æðplöntutegunda á svæðum þar sem hún hefur numið land.  

Pawel Wasowicz, grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands stýrði rannsóknum sem styrktar voru af Kvískerjasjóði. Með honum störfuðu Guðrún Óskarsdóttir gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, Guðrún Gísladóttir prófessor í landfræði við Háskóla Íslands og  Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands.  

Stafafura (Pinus contorta) í Steinadal – mat á ágengni