Vísindagrein um líftölur íslenskra fálka

Nýverið kom út í vísindatímaritinu PeerJ grein eftir vistfræðingana Frédéric Barraquand​ og Ólaf K. Nielsen sem fjallar um líftölur íslenskra fálka, Falco rusticolus. Þetta er í fyrsta sinn sem lagt er mat á lífslíkur fálka hér á landi en rannsóknirnar byggðust á merkingum og endurheimtum merktra fugla.

Fálki er ránfugl sem á heimkynni á norðurhjaranum hringinn í kringum pólinn. Á liðnum öldum voru fálkar fluttir út frá Íslandi til meginlands Evrópu, og jafnvel lengra til. Ytra voru fálkarnir tamdir og aðalsmenn og konungar notuðu þá til fuglaveiða. Tölur frá 18. öld um útflutta fálka frá Íslandi sýna að fálkastofninn reis og hneig og stofnsveiflan tók um 10 ár. Rannsóknir á Norðausturlandi frá 1981 til dagsins í dag sýna að fálkastofninn sveiflast enn. Stofnsveiflur fálkans og rjúpunnar eru nátengdar og fálkinn er einn af þeim náttúrulegu þáttum sem móta stofnsveiflu rjúpunnar. Þrátt fyrir þessa vitneskju voru grunnþættir eins og lífslíkur fálka óþekktir, ekki aðeins á Íslandi heldur öllu útbreiðslusvæðinu.

Í rannsókninni var notað fjölþrepa Markov-líkan og gögnin voru fjöldi merktra fálka, álestrar merkja á lifandi fuglum og endurheimtur dauðra fugla. Niðurstöður sýna að lífslíkur fullorðinna fálka voru að meðaltali 83% en 40% hjá ungum fuglum. Mikill breytileiki er í því hvað fuglarnir verða gamlir, þeir sem lengst lifa verða um það bil 15 ára gamlir en reiknaður meðallífaldur er einungis um átta ár. Þetta skýrist mögulega af tíðum dauðsföllum af mannavöldum en t.d. var fjórðungur röntgenmyndaðra fálkahræja var með högl í sér. Lífslíkur ungra fugla eru um helmingi lægri en lífslíkur fullorðinna fugla og það kom á óvart í rannsókninni að lífslíkur ungra fálka virðast hvorki tengjast veðri né þéttleika rjúpunnar.

Nánari upplýsingar er að finna í greininni: Survival rates of adult and juvenile gyrfalcons in Iceland: estimates and drivers

Rannsóknin var hluti af vöktun fálka sem hófst árið 1981 á Norðausturlandi.