13. desember 2017. Pawel Wąsowicz: Melampyrum pratense – a new species in the flora of Iceland with a very long history

Pawel Wasowicz

Pawel Wąsowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Melampyrum pratense – a new species in the flora of Iceland with a very long history“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 13. desember kl. 15:15.

Hvað vitum við um flóru Íslands? Við kunnum jú þó nokkuð en vitneskja okkar er þó ekki tæmandi, jafnvel þó næstum 250 ár séu liðin frá því Otto Friederich Muller birti fyrsta íslenska plöntulistann. Tíminn sem hefur liðið síðan þá markar sögu vísindarannsókna á gróðri Íslands. Kynslóðir grasafræðinga hafa unnið að því að svara spurningunni, hve margar plöntutegundir vaxa á Íslandi, en athyglisvert er að við því hefur enn ekki fengist fullnægjandi svar.

Árið 2016 fannst stór stofn Engjakambjurtar (Melampyrum pratense) sem vex út af fyrir sig í Vaglaskógi á norðausturhluta Íslands. Fundurinn er allsérkennilegur því um er að ræða tegund sem dreifir sér hægt og oftast með maurum, og er næsti þekkti stofn hennar staðsettur á Hjaltlandseyjum, um 1.000 km suðaustur af Vaglaskógi. Í fyrirlestrinum verður rætt um þessa nýju uppgötvun og sögu hennar, auk þess sem fjallað verður um niðurstöður nýlegra rannsókna sem gerðar voru til að varpa ljósi á uppruna stofnsins.

Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

Engjakambjurt (Melampyrum pratense) vex í Vaglaskógi.
Mynd: M. Wierzgon

Engjakambjurt (Melampyrum pratense) vex í Vaglaskógi.