14. mars 2018. Borgþór Magnússon: Vistgerðir birkiskóga

Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Vistgerðir birkiskóga“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 14. mars kl. 15:15.

Árið 2016 lauk Náttúrufræðistofnun Íslands lýsingu og kortlagningu vistgerða á landi, í ám og vötnum, og fjörum hér á landi. Í ritinu Vistgerðir á Íslandi var lýst 104 vistgerðum og útbreiðsla þeirra sýnd á rafrænu vistgerðakorti af landinu. Mikil gagnasöfnun og úrvinnsla lág að baki þessu verki sem hófst árið 1999. Síðustu svæði sem farið var um til að afla gagna voru birkiskógar landsins en þeir voru kannaðir 2015. Það var gert í samvinnu við Skógrækt ríkisins sem hefur frá árinu 2005 lagt út fasta vöktunarreiti í birkiskógum og ræktuðum skógum vítt og breitt um landið.  Sumarið 2015 var farið til mælinga í liðlega 50 birkireitum Skógræktarinnar en einnig voru við úrvinnslu nýtt gögn úr um 30 birkireitum Náttúrufræðistofnunar frá eldri verkefnum. Í öllum þessum reitum var hæð birkis mæld, tegundasamsetning botngróðurs, dýpt og efnasamsetning jarðvegs, auk fleiri þátta.

Eftir úrvinnslu gagna og bollaleggingar varð að niðurstöðu að skipta mætti íslenskum birkiskógum niður í þrjár vistgerðir eftir hæð þeirra og tegundasamsetningu botngróðurs. Þetta eru kjarrskógavist, lyngskógavist og blómskógavist, en þeim er öllum lýst nánar í ritinu sem vísað er til að ofan. Þessi skipting er lík eldri lýsingum á skógunum út frá gróðurfari þeirra og grósku. Með vistgerðalýsingunum koma þó í fyrsta sinn fram upplýsingar um gróður og jarðveg skóganna sem eru samanburðarhæfar við gögn frá öðrum landvistgerðum hér á landi.

Útbreiðsla birkiskóga á landinu var ekki kortlögð í vistgerðaverkefninu heldur nýtt kortlagning Skógræktar ríkisins sem aðgangur var veittur að. Greining skóganna eftir vistgerðum hefur ekki verið gerð enn.

Í erindinu verður greint nánar frá söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og niðurstöðum.

Fyrirlesturinn á Youtube