15. febrúar 2006. Halldór G. Pétursson: Eyðing Gásakaupstaðar af völdum skriðufalla 1390

15. febrúar 2006. Halldór G. Pétursson: Eyðing Gásakaupstaðar af völdum skriðufalla 1390

Gásakaupstaður við Hörgárósa í Eyjafirði var einn helsti verslunarstaður Norðurlands á víkingatíma og miðöldum en verslun lagðist þar af á 15. öld og fluttist inn á Akureyri. Í erindinu er fjallað um nýlegar rannsóknir á Hörgárósum og vatnasviði Hörgár sem benda til að kaupskapur á Gásum hafi lagst af í kjölfar mikilla skriðufalla í Hörgárdal árið 1390. Þá er talið að mikið skriðuefni, m.a. jarðvegstorfur og kjarr, hafi borist í Hörgá, stíflað árósinn sem að lokum hljóp fram. Í kjölfarið myndaðist nýr fjörukambur utan um eldri kamb sem Gásakaupstaður stendur á og eyðilagði þar með skipalægi og aðgang kaupstaðarsvæðisins að sjó. Síðan hefur Gásakaupstaður legið í eyði.

Verslunarstaður um aldir
Gásakaupstaður í Eyjafirði var einn af aðalverslunarstöðum Norðurlands á söguöld og fram á miðaldir. Ekki er talið að þar hafi verið föst búseta en kaupmenn reistu þar búðir sínar um verslunartímann á sumrin auk þess að handverksmenn fengust þar við iðju sína. Fáum sögum fer af Gásakaupstað eftir aldamótin 1400, er hann lagðist í eyði og verslun færist inn á Akureyri. Rústir Gásakaupstaðar eru rétt sunnan við Hörgá og þar hafa verið stundaðar miklar fornleifarannsóknir á síðustu árum (sjá heimasíðu Gásaverkefnisins). Á Náttúrufræðistofnun Íslands hafa farið fram rannsóknir á landmótun og skriðuföllum á vatnasviði Hörgár, sem geta varpað nokkru ljósi á ástæður þess að Gásir lögðust af sem verslunarstaður.

Rústasvæðið að Gásum stendur á flatri eyri sem ber með sér að hafa einhvern tíma verið fjörukambur og brún óshólma Hörgár. Utan við hana er önnur eyri eða fjörukambur jafnan nefnd Gáseyri í dag og markar hún brún Hörgárósa. Milli eyranna og innan við rústakambinn eru leirur sem vatnar yfir á flóði. Ekki er skipgengt að gömlu eyrinni eins og aðstæður eru í dag en ákjósanlegt skipalægi er hins vegar sunnan við ytri eyrina og lágu þar oft þilskip í vari á skútuöldinni. Þessar aðstæður bera með sér að þegar Gásakaupstaður var og hét var ytri kamburinn ekki til. Skip gátu þá siglt að fjörunni við rústirnar. Síðan hefur ytri kamburinn myndast utan um þann innri og ber útlit svæðisins með sér að það hefur gerst við að ósinn hefur hlaupið skyndilega fram með miklum aurburði. Það hefur gerst við miklar hamfarir á vatnasviði Hörgár. Mikil skriðuföll hafa greinilega orðið á vatnasviðinu.

Hamfarir í Hörgárdal 1390

Svo vill til að fornar heimildir greina frá óskaplegum skriðuföllum á Hörgárdalssvæðinu, og reyndar víðar á Norðurlandi, rétt áður en Gásakaupstaður hverfur úr sögum. Þær eru frá haustinu 1390 en þá lögðu skriður

í rúst höfuðbólið Lönguhlíð neðri, sem síðan heitir Skriða, og bæinn í Búðarnesi. Fórust þá á einni nótt í Hörgárdal um 30 manns. Þá var jarðvegur og gróður mun meiri utan á fjallahlíðum en í dag og féllu víða stórar jarðvegsskriður. Mikið af framburði skriðanna, aur, mold, torfur, kjarr og skógartré barst út í Hörgá, sem braust fram í ægivexti vegna úrfellis. Allur þessi framburður stíflaði ána þannig að hún flæddi yfir bakka sína og sumstaðar urðu þær farvegsbreytingar til frambúðar. Eins og t.d. við Laugaland á Þelamörk þar sem áin fann sér nýjan farveg austan megin í dalnum en yfirgaf eldri farveg vestan megin. Ósinn stíflaðist líka, líklega mest af viði og jarðvegstorfum, þar til áin náði að ryðja sig og var þá ósinn skyndilega kominn lengra í sjó fram en áður. Þar tóku sjávarfallastraumar við framburðinum og mótuðu fljótt nýjan fjörukamb utan um hinn eldri.

Eftir þessar hamfarir einangraðist Gásakaupstaður frá sjó, ekki var hægt að lenda þar lengur og talsverð fjarlægð orðin frá hentugu skipalægi að verslunarsvæðinu. Líklegt er að svæðið umhverfis Hörgárósa hafi reynst varhugavert í langan tíma eftir þetta sökum mikils framburðar og kaupmenn því orðið að leita skipum sínum lægis annars staðar og Akureyri þá orðið fyrir valinu sem verslunarstaður. Ummerki um þessar hamfarir sjást enn sem forn skriðuör í fjallahlíðum á Hörgárdalssvæðinu en auk þess grefur sjávarrót af og til fram forna torfusnepla og stóra viðarbúta úr fjörukambinum sem myndaðist árið 1390 við Hörgárósa. Í erindinu mun Halldór greina frá rannsóknum sínum á hamförunum í Hörgárdal árið 1390.