15. nóvember 2017. Sigurður H. Magnússon: Áhrif Lagarfossvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar á gróður og landbrot við Lagarfljót 1976–2014

Sigurður H. Magnússon

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Áhrif Lagarfossvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar á gróður og landbrot við Lagarfljót 1976–2014“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 15. nóvember kl. 15:15.

Frá því að Lagarfljótsvirkjun tók til starfa árið 1975 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands fylgst með breytingum á gróðri og landbroti á nokkrum láglendum svæðum við Lagarfljót ofan við Lagarfoss. Megintilgangur rannsóknanna hefur verið að kanna áhrif Lagarfossvirkjunar og síðar Kárahnjúkavirkjunar á gróður við fljótið og á landbrot. Í verkefninu hefur einnig verið reynt að varpa ljósi á tengsl milli vatnsstöðu í fljóti og grunnvatnsstöðu í jarðvegi og skýra áhrif breyttrar beitar á gróður.

Með tilkomu Lagarfossvirkjunar breyttist vatnshæð og flóðamynstur í Lagarfljóti. Vatnsborð hækkaði til dæmis að meðaltali um 1,88 m við Lagarfoss en um 0,28 m við Lagarfljótsbrú. Vegna Kárahnjúkavirkjunar sem gagnsett var síðla árs 2007 breyttist vatnshæð í fljótinu enn frekar. Við Lagarfoss lækkaði vatnsborð um 0,34 m en við Lagarfljótsbrú hækkaði það um 0,14 m, auk þess dró mikið úr vatnsborðssveiflum.

Frá 1975 hefur talsvert land tapast í fljótið vegna landbrots. Mest hefur það mælst 60–70 cm á ári. Ef eingöngu er miðað við þau svæði þar sem landbrot hefur verið mælt má gróflega ætla að á árunum 1975–2014 hafi um 7 ha af landi tapast í fljótið á um 12 km strandlengju.

Við Lagarfljót hafa sums staðar orðið allmiklar gróðurbreytingar sem rekja má til virkjananna tveggja og til minni sauðfjárbeitar. Vegna Lagarfljótsvirkjunar blotnaði land, einkum frá Dagverðargerði inn fyrir Egilsstaði. Svæði vaxin flóagróðri blotnuðu og eindregnar flóategundir eins og tjarnastör, gulstör, vetrarkvíðastör og horblaðka urðu ríkjandi í gróðri. Deiglendi breyttist sums staðar í mýri og dæmi voru um að þurrlendi hafi blotnað og breyst í deiglendi. Kárahnjúkavirkjun er farin að hafa áhrif á gróður. Lækkun vatnsborðs á ystu svæðunum hefur breytt gróðri í átt til fyrra horfs en sums staðar ofar með fljótinu hefur land blotnað enn frekar og valdið frekari gróðurbreytingum.

Áhrif minni sauðfjárbeitar eru sums staðar mikil. Víðir hefur aukist og einnig birki. Dregið hefur úr þekju mosa. 

Fyrirlesturinn á Youtube

Við Dagverðargerði hefur landbrot verið mikið og talsvert af grónu landi farið í fljótið
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Við Dagverðargerði hefur landbrot verið mikið og talsvert af grónu landi farið í fljótið, 6. ágúst 2014.