16. mars 2016. Lovísa Ásbjörnsdóttir: Jarðminjaskráning

16. mars 2016. Lovísa Ásbjörnsdóttir: Jarðminjaskráning

Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Jarðminjaskráning“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 16. mars kl. 15:15.

Í erindinu verður fjallað um jarðminjaskráningu í Evrópu þar sem sérstaklega verður farið yfir aðferðafræðina á bak við skráningu jarðminja í Bretlandi, Frakklandi og Noregi. Í framhaldi af því verður fjallað um skráningu jarðminja hér á landi.

Á síðustu árum hefur umræðan um jarðminjar og jarðminjavernd í Evrópu farið vaxandi. Fagleg jarðminjaskráning er forsenda fyrir vernd jarðminja og hafa margar þjóðir í Evrópu lokið við að skrá jarðminjar í sínu landi. Ekki er um að ræða samræmda skráningu milli landa þar sem hver þjóð fylgir löggjöf í sínu landi, en þær eiga það sameiginlegt að skráðar eru upplýsingar um vísindalega þekkingu og verndargildi jarðminja. Jarðminjaskráning gefur góða yfirsýn yfir merkar jarðminjar í hverju landi fyrir sig og undirstrikar jafnframt mikilvægi þeirra á landsvísu og á heimsvísu. Þá hefur sýnt sig að aðgengi almennings, stjórnvalda og framkvæmdaraðila að slíkri skráningu, dregur úr hættu á því að jarðminjum sé raskað vegna vanþekkingar eða skorts á upplýsingum. Þá hafa margar þjóðir viðurkennt jarðfræðilegan breytileika sem mikilvægan þátt í vistkerfi og landslagi og skrá upplýsingar um náttúrulegan breytileika (e. nature diversity) svæða.

Íslensk náttúra einkennist af stórbrotnu landslagi sem er myndað og mótað af eldvirkni, ísaldajöklum og virkum landmótunarferlum. Landið hefur mikla jarðfræðilega sérstöðu og með jarðminjar á heimsvísu. Jarðminjaskráning og jarðminjavernd eru skammt á veg komin hér á landi, en mikilvægt er að skipulögð og fagleg skráning hefjist sem fyrst. Samhliða því er nauðsynlegt að endurskoða gildi jarðminja í núverandi friðlýsingum, ásamt lýsingum í náttúruminjaskrá. Skráning jarðminja er langtímaverkefni sem byggir á faglegri þekkingu og samstarfi jarðvísindamanna á hinum ýmsu fræðisviðum jarðvísindanna. Margt er ógert, en reynsla annarra þjóða er góður grunnur til að byggja á.

Fyrirlesturinn á Youtube