21. október 2015. Erling Ólafsson: Smádýr í öskufalli frá Eyjafjallajökli 2010

Erling Ólafsson

Erling Ólafsson

Erling Ólafsson skordýrafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Smádýr í öskufalli frá Eyjafjallajökli 2010“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 21. október kl. 15:15.

Eldgos og lífríkið

Þann 14. apríl 2010 hófst eldgos í Eyjafjallajökli sem varð upphaf að miklu og afdrifaríku öskufalli. Röskun varð á ýmsum athöfnum okkar manna og náðu áhrifin langt út fyrir landsteina.  Mikið var spurt um áhrif öskufallsins á lífríkið og óttuðust margir að það yrði varla samt eftir, rétt eins og aldrei fyrr hefði eldgos átt sér stað á Íslandi. Því skal haldið til haga að eldgos hafa alla tíð verið áhrifavaldar í mótun náttúru landsins, jafnt jarðgrunns, gróðurfars og dýralífs. Þeirri mótun er hvergi nærri lokið.

Nauðsynlegt er að búa yfir grunnupplýsingum um lífríki til að geta metið áhrif eldgosa, það er hvað gerist í fyrstu andrá og hver þróunin verður í kjölfarið. Oftast er haft í huga hver áhrifin kunna að verða á gróðurfar og fuglalíf, þessa áberandi lífveruhópa sem eru fyrir hvers manns augum. Smádýrin eru ekki jafn hugleikin fólki vegna þess að þau eru flestum falin. Því má þó ekki gleyma að þau gegna lykilhlutverki við að þjónusta samfélög lífvera. Hvorki plöntur né fuglar stæðu á eigin fótum ef smádýranna nyti ekki við.

Fiðrildavöktun

Árið 1995 var ýtt úr vör rannsóknaverkefni sem fólst í því að vakta stofna fiðrilda á tveim stöðum á landinu, í Fljótshlíð og Öræfum. Öflun gagna fór fram með notkun sjálfvirkra gildra sem keyrðar hafa verið í þrjátíu vikur á ári hverju frá vori til hausts. Vitjað hefur verið um þær vikulega til að skoða hvernig fiðrildafánan þróast í gegnum sumarið og sjá hvernig þróunin verður eftir því sem árin líða.  Smám saman fór gildrustöðvum á landinu að fjölga, fyrir tilstilli náttúrustofa landshlutanna og áhugamanna. Í þessu verkefni hefur tekist góð samvinna Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna. Þannig hefur verið að byggjast upp haldgóð grunnþekking á fiðrildafánu landsins við mismunandi aðstæður vítt og breytt. Fiðrildi þykja einkar hentugur dýrahópur til að vakta breytingar sem kunna að verða á lífríki af hinum ýmsu orsökum, hvort heldur er af völdum loftslagsbreytinga, náttúruhamfara eða athöfnum mannanna. Þegar breyting verður á fiðrildastofnum er fyrir því orsök sem ráðlegt er að leita skýringa á.

Ýmis áhrif af öskufallinu frá Eyjafjallajökli urðu þegar augljós þó ekki lægju að baki þeim vísindalegar rannsóknir. Má sem dæmi nefna hremmingar sem humlur lentu í þegar víðireklar þöktust ösku, en frjó og blómasafi sem reklarnir framleiða á vorin eru ómissandi matföng humludrottninganna þegar þær vakna af vetrardvalanum og fara að leggja drög að búskapnum. Sjá mátti fallnar humludrottningar liggjandi á víð og dreif.

Svo vildi til að þrjár gildrustöðvar höfðu verið í gangi í nágrenni Eyjafjallajökuls, á Tumastöðum í Fljótshlíð (frá 1995), Rauðafelli (frá 2005) og Skógum (frá 2006). Þess vegna lá fyrir haldbær þekking á fiðrildafánunni við eðlilegar aðstæður og var því mögulegt að meta hver áhrif öskufalls voru í raun og veru bæði á einstakar tegundir og hópinn í heild sinni. Auk fiðrilda hefur gögnum um vorflugur verið haldið til haga. Vorflugur auka víddina því ólíkt fiðrildum eru uppeldisstöðvar þeirra í vatni. Sýnatöku hefur verið fram haldið allar götur frá því að askan féll.

Fyrirlesturinn á YouTube

Mófeti í Þórsmörk í júní 2010
Mynd: Erling Ólafsson

Mófeti komst á flug í Þórsmörk í júní 2010, en honum mætti jörðin alþakin ösku