25. apríl 2007. Hilmar J. Malmquist: Undan hraunum renna frjósöm vötn

25. apríl 2007. Hilmar J. Malmquist: Undan hraunum renna frjósöm vötn

Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur erindi þar sem fjallað verður um tengsl lífríkis við vatna- og jarðfræðilega þætti í íslenskum stöðuvötnum. Sjónum verður sérstaklega beint að lindavötnum.

Ísland er að mörgu leyti sérstakt í vatnafræðilegu tilliti. Hér ægir saman vötnum af býsna ólíkum toga, allt frá fimbulköldum jökulvötnum og hrjóstrugum dragavötnum til ljúfra lindavatna og funheitra hveralækja. Landið er mjög vatnsríkt vegna mikillar úrkomu en lítillar uppgufunar. Afrennsli á hverja flatareiningu lands er með því mesta sem þekkist í Evrópu og sama gildir um efnarof og umfang aurburðar.

Á alþjóðavísu eru lindavötn á yngri móbergsmyndun Íslands e.t.v. hvað athygliverðust. Lindavötn á Íslandi og hraunumhverfi þeirra eiga vart sinn líka í Evrópu hvað varðar eðlis- og efnaeiginleika, sem grundvallast á berggerðinni, hinu unga, hripleka og auðleysanlega basalthrauni. Vötn og jarðmyndanir af þessu tagi er óvíða að finna annars staðar á jarðarkringlunni. Í Evrópu er nútímahraun t.d. aðeins að finna á einum stað utan Íslands, þ.e. sunnarlega á Ítalíu.

„Frjó eru vötn sem renna undan hraunum“ ku vera fornt orðtak og lýsandi fyrir þá staðreynd, sem staðfest hefur verið með síðari tíma rannsóknum, að lífvænleiki og gróska er jafnan meiri í vötnum af lindatoga en af annarri gerð. Þeir þættir sem helst stuðla að þessu eru m.a. hreinleiki vatnsins, efnaríkt innihald og stöðugleiki í hitastigi og vatnsbúskap. Fleiri þættir koma hér við sögu og ber sérstaklega að nefna rúmfræðilega eiginleika hraungrýtisins, sem virðast m.a. hafa ráðið nokkru um þróun dýra hér á landi, jafnvel um tilurð tegunda sem hvergi þekkjast annars staðar á jörðinni.

Erindið byggist að miklu leyti á upplýsingum í gagnagrunni Yfirlitskönnunar á lífríki íslenskra stöðuvatna, sem er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofu Kópavogs, Líffræðistofnunar Háskólans, Hólaskóla og Veiðimálastofnunar.