31. janúar 2018. Sunna Áskelsdóttir: Endurheimt votlendis hjá Landgræðslunni

Sunna Áskelsdóttir héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Hvanneyri flytur erindið „Endurheimt votlendis hjá Landgræðslunni“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 31. janúar kl. 15:15. Fyrirlesturinn er tileinkaður alþjóðlegum degi votlendis þann 2. febrúar.

Alþjóðlega eru votlendi mikilvæg vistkerfi. Þau eru undirstaða fjölbreytts dýra og plöntulífs en eru manninum einnig mikilvæg vegna þeirrar margvíslegu þjónustu sem þau veita okkur. Ástandi þessa vistkerfis hefur víðast hvar hnignað og vegna áhrifa manna og loftlagsbreytinga eru þau í mikilli hættu.

Þetta á einnig við hér á landi. Flestir þekkja sögu nýtingar votlendis hérlendis, frá hefðbundinni nýtingu til áveitna og síðar framræslu. Nú er það svo að um helmingi votlendis á landinu hefur verið raskað en allt að 70% þess sem finnst á láglendi. Einungis lítill hluti framræsts votlendis er nýtt til ræktunar og því er mikilvægt að endurheimta votlendi á slíkum svæðum, meðal annars til að bæta búsvæði fugla og takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Frumkvæði að endurheimt votlendis kom einkum frá áhugamönnum um fuglavernd og árið 1996 skipaði umhverfisráðherra votlendisnefnd sem ætlað var að gera tilraunir til að endurheimta votlendi hérlendis. Síðan þá hafa ýmsir aðilar, stofnanir og einstaklingar endurheimt um 50 svæði; tjarnir, vötn og mýrlendi.

Haustið 2014 boðaði umhverfis- og auðlindaráðherra til samráðs helstu hagsmuna- og fagaðila um mótun aðgerðaráætlunar varðandi endurheimt votlendis. Í kjölfarið var Landgræðslu ríkisins falin framkvæmd endurheimtar votlendis í samræmi við sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftlagsmálum, árið 2016. Síðan þá hefur Landgræðslan veitt styrki til ellefu verkefna og veitt ráðgjöf um framkvæmd og eftirlit með árangri.

Almennt tókust framkvæmdir vel og árangur lofar góðu. Nú er unnið að vöktunaráætlun í samvinnu við aðrar stofnanir og voru fyrstu vöktunarsvæðin tekin út sumarið 2017. Við vöktunina er ætlunin að leggja mat á þær breytingar sem eiga sér stað á losun gróðurhúsalofttegunda og lífríki svæða við endurheimt votlendis. Unnið var á fjórum svæðum síðastliðið sumar á ýmsum stöðum á landinu. Á þessu ári verður vinnunni haldið áfram, fleiri svæði tekin inn auk samstarfs Landgræðslunnar við ýmsa aðila um fræðslu, rannsóknir og framkvæmdir.

Fyrirlesturinn á Youtube