6. febrúar 2008. Þröstur Þorsteinsson: Útbreiðsla og ákafi Mýraelda 2006

6. febrúar 2008. Þröstur Þorsteinsson: Útbreiðsla og ákafi Mýraelda 2006

Þröstur Þorsteinsson jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands heldur fyrirlestur um mestu sinuelda sem þekktir eru á Íslandi.

Í kjölfar sinubrunans á Mýrum vorið 2006 hófust viðamiklar rannsóknir á sinubrunanum og áhrif eldanna á vistfræði svæðisins. Samstarfsaðilar sem standa að þessum verkefni eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Háskóli Íslands.

Gróðureldar eru algengir víða á jörðinni og árlega brenna nokkrar milljónir ferkílómetra lands af þeirra völdum. Gervitungl hafa síðustu ár hjálpað mjög við mælingar á stærð og útbreiðslu gróðurelda.

Mesti skráði sinubruni Íslandssögunnar varð vorið 2006, þegar eldur kom upp á Mýrum, en þar brann svæði sem var um 73 km2 að flatarmáli (Þingvallarvatn er um 82 km2 til samanburðar) á þremur dögum; 30. mars - 1. apríl, 2006. Með úrvinnslu gervitunglamynda og athugunum á jörðu niðri er hægt að rekja framvindu eldanna á Mýrum og ákafa (orkulosun). Meðal annars er hægt að segja til um hvenær eldarnir höfðu náð til sjávar og þannig meta útbreiðsluhraða þeirra í upphafi. Meðalhraði eldtungunnar, fyrstu 4 - 5 klukkustundirnar, var um 3200 metrar á klukkustund, en vindhraði á þessum tíma var um 11 m/s (40 km á klst).

Mestur ákafi var í upphafi eldanna en þá mældust heitir reitir (hver reitur er 1 km2) með orkulosun upp á um 200 MW, en mun minni ákafi var í eldunum þá um kvöldið, enda hafði vind lægt töluvert. Samband veðurs og elda er mjög sterkt og góð gögn til sem sýna það vel. Á þeim tíma sem gervitunglin fóru yfir landið þann 1. apríl lágu eldarnir að mestu niðri og námu þau því engin hitafrávik, en eldur blossaði upp síðar þann dag.

Í fyrirlestrinum verður einnig vikið lítillega að eldum sem komu upp í mosaþembu á Miðdalsheiði í júní 2007.

Gróðureldar