7. maí 2003. Helgi Torfason: Jarðhitakort af Íslandi

7. maí 2003. Helgi Torfason: Jarðhitakort af Íslandi

Helgi Torfason jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 7. maí 2003.

Eitt af séreinkennum Íslands er jarðhiti, en hann er nátengdur eldvirkni landsins, jarðskjálfum og mikilli úrkomu. Nærtækast er staðarnafnið “Reykjavík” sem er yfir þúsund ára gamalt og dró nafn sitt af gufustrókum, sennilega frá jarðhita í Laugardal. Sá jarðhiti hvarf ekki af yfirborði fyrr en um 1965, er farið var að dæla úr borholum þar. Sá sem einna fyrstur setti jarðhita á kort af öllu landinu var Þorvaldur Thorooddsen (kort birt 1901) og lýsti hann jarðhita á mörgum stöðum í bókum sínum. Á þeim tíma sem hann var uppi voru hitamælar hins vegar ekki almenningseign og því ekki margir sem gátu mælt hita. Þorkell Þorkelsson, veðurstofustjóri fór einna fyrstur að rannsaka jarðhitann á vísindalegan hátt, skrá hann skipulega, efnagreina vatn og athuga ýmsa þætti er tengjast honum. Trausti Einarsson prófessor rannsakaði jarðhitann mikið og birti lista yfir valda jarðhitastaði (t.d. 1942), en Rannsóknarráð ríkisins birti einn fyrsta samfellda listann fyrir landið árið 1944. Aðrir vísindamenn tóku síðan við og var það einkum Raforkumálaskrifstofan, síðar Orkustofnun, sem stóð fyrir rannsóknum á eðli jarðhitans og hélt utan um upplýsingar sem honum tengdust (sjá t.d. skýrslu Guðmundar Pálmasonar o.fl 1985).

Nákvæmt jarðhitakort yfir landið hefur verið í smíðum í áratug og er þá miðað við kort í kvarða 1.500.000, en handrit af því var fyrst sýnt á ársfundi Orkustofnunar 1993. Með hraðri þróun í tölvutækni komu fram um 1980-85 forrit sem voru mjög þægileg til að varðveita upplýsingar á skipulegan hátt, gagnagrunnar svo sem Access, Oracle o.fl. Mestu framfarirnar voru í sn. landupplýsingakerfum 1990-95 (ArcInfo, ArcView, Microstation) þar sem unnt var að varðveita upplýsingar um fyrirbrigði og staðsetningu þeirra á einfaldan hátt, og setja fram á kort á ýmsa vegu.

Jarðhitakort er sérkort sem sýnir dreifingu jarðhita, hitastig og annað sem við á. Jarðhitastaðir eru merktir á jarðfræðikort Náttúrufræðistofnunar Íslands, en ekki á sama hátt.

Á korti í kvarða 1:500.000 táknar hver millimetri á kortinu 500 m á yfirborði jarðar. Innan hvers slíks punkts eru því yfirleitt margir staðir eða hópar jarðhita. Til að halda saman upplýsingum um jarðhita landsins var því byrjað á því að skilgreina misstóra hópa og þeim gefin númer þannig að unnt væri að nálgast upplýsingarnar á einfaldan og skipulegan hátt. Gagnasafn yfir jarðhita á Íslandi er miðað við kort í kvarða 1.50.000 og nær þá hver millimetri yfir 50 m og má kalla samsafn jarðhita innan 50 m radíus “laugahóp” eða “laugaþyrpingu”. Innan hvers hóps eru síðan “augu” sem eru minnstu einingarnar, og er ekki alltaf unnt að skrá þau öll vegna fjöldans. Á háhitasvæðum landsins eru auk þess misstórir “flákar” eða “skikar” þar sem hiti er samfelldur á svæði sem er nokkur hundruð metrar á hvern veg. Einnig má skipta jarðhitastöðum eftir t.d. útliti (gufuhver, vatnshver, leirhver o.þh.) eða eftir efnasamsetningu.

Gögn yfir jarðhitastaði eru miðuð við svæði með um það bil 50 m radíus og þau númeruð eftir landshlutum þannig að t.d. fá laugarnar í Laugardal einkennisnúmer G-001 og hvert auga fengi G-001,1, G-001,2 o.s.frv. Til að birta upplýsingar um jarðhitastaði á korti í kvarða 1:500.000 þarf að slá saman nokkrum slíkum laugasvæðum í “reiti” og er hver reitur með um 500 m radíus. Þeir eru númeraðir t.d. 2008, sem nær yfir 9 hópa eða þyrpingar í Grafarholti með allt að 12°C hita. Á þennan hátt er unnt að skrá allan jarðhita á sama hátt fyrir landið. Talsverður munur er þó á skráningu t.d. á lághita- og háhitasvæðum, því fjöldi gufuhvera á sumum háhitasvæðum er of mikill til að unnt sé að skrá hvern hóp með hitastigi og öllu tilheyrandi, nema með mjög mikilli vinnu. Oft eru slíkir staðir því enn sem komið er aðeins skráðir með lágmarksupplýsingum s.s. staðsetningu.

Vinna við gerð gagnasafns yfir jarðhita hófst meðan höfundur var starfsmaður á Orkustofnun og hefur áfram verið unnið í samvinnu við OS að uppbyggingu safnsins og hvernig gögnin eru sett fram á kort. Vonast er til að kortið verði prentað 2004 af Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands og gögn verði þá gerð aðgengileg að netinu.