8. maí 2013. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Sveppir í Heimaey og Surtsey sumarið 2010

8. maí 2013. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Sveppir í Heimaey og Surtsey sumarið 2010

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi sitt „Sveppir í Heimaey og Surtsey“ sumarið 2010 á Hrafnaþingi miðvikudaginn 8. maí kl. 15:15.

Í fyrirlestrinum verður greint frá leiðangri sveppafræðingsins til Surtseyjar í ágúst 2010. Ferðin hófst að morgni þess 17. ágúst þegar lagt var af stað úr Reykjavík áleiðis til Surtseyjar. Farið var um Landeyjarhöfn til Heimaeyjar en þar var áð meðan björgunarskip þeirra Vestmannaeyinga var gert klárt til siglingar til Surtseyjar. Þar fékk ég tíma til þess að skoða fungu Heimaeyjar en undir kvöld, þann 18. ágúst, var skipið klárt og siglt var með mig og tvo samferðamenn mína til Surtseyjar. Það rigndi þegar við komum í eyna en hélst þurrt að mestu næstu tvo dagana er ég leitaði sveppa, skráði staðsetningu þeirra, tók myndir og safnaði svo sýni, lýsti og bjó til þurrkunar. Síðdegis þann 20. ágúst tókum við saman búnað og sýni og gengum suður á tangann þar sem björgunarfélagsmenn sóttu okkur á skipi sínu í fyrsta áfanga heimferðarinnar sem gekk vel og um miðnætti voru sýnin og sveppafræðingurinn komin í áfangastað í höfuðborginni. Næstu daga var unnið að greiningu sveppanna og þeir þurrkaðir.

Í sveppasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands voru skráð þrjú sýni sveppa frá Heimaey, blýkúla (Bovista plumbea), melkúla (B. tomentosa) og flóakveif (Galerina clavata) auk þess sem fundur ormkylfu (Clavaria fragilis) var skráður. Funga Heimaeyjar var því að mestu óskráð. Á þessum tveim dagspörtum fundust í Ofanleitishrauni og út undir sjó þar á vesturströnd eyjarinnar og síðan á grasflötum og óræktarblettum meðfram Hraunvegi að minnsta kosti 12 tegundir hattsveppa. Sumir sveppanna höfðu myndað mörg aldin og vakti það vonir um að eitthvað væri sprottið af sveppum í Surtsey.

Gróðurvistfræðingar sem könnuðu ástand plantna í Surtsey fyrr um sumarið höfðu merkt 10 víðiplöntur sem þar vaxa með priki þannig að auðveldara væri að finna þær þegar búið væri að finna staðinn með hjálp GPS tækninnar. Þar sem víðir myndar svepprót má búast við sveppaldinum við plönturnar. Engin sveppaldin fundust við eina unga loðvíðiplöntu en frá einu upp í tólf við hinar níu víðiplönturnar. Samanborið við árið 2008 þá var heldur minna um aldin svepprótarsveppa í þetta skiptið.

Á leifum melgresis þar sem bleytu gætir vex rauðbrúnn sveppur í knippum, Deconia subviscida var.subviscida. Hann fannst á einum stað 2008 en þar og á tveim í viðbót í þetta skiptið.

Sá sveppur, sem þótt lítill væri, var mest mest áberandi og mjög útbreiddur í jarðvegi í jaðri yngsta hluta mávavarpsins var Arrhenia rustica (í víðum skilningi tegundarhugtaksins), tegund sem fannst árið 1990 á jarðvegi í mávavarpinu. Þeirri tegund hefur hins vegar verið skipt upp í nokkrar tegundir og ekki er fullljóst ennþá hvort nú heiti sveppurinn Arrhenia obscurata eða eitthvað annað. Eins og fyrr var silkiroðla (Entoloma sericeum) áberandi víða í mávavarpinu þar sem gróður þakti hraunið.

Áhugaverðastur var samt blettur í mávavarpinu, hraunmólendi sem bauð upp á fjórar tegundir hattsveppa sem ekki höfðu sést fyrr í Surtsey. Stæðileg kempa (Agaricus sp.) ekki ósvipuð mókempu, A. arvensis, blasti þar við á grasi grónum hraungarði og sást langt að. Í svolítilli lægð norðan við garðinn voru gulltoppa (Hygrocybe conica), væturoðla (Entoloma sericellum) og frekar lítill, ljósbrúnn hattsveppur með nafla í hatti og gró sem voru hrjúf, tegund sem ekki hefur tekist að greina.

Nú hafa að minnsta kosti 21 tegund stórsveppa og 29 tegundir smásveppa fundist í Surtsey og af þeim fundust í þessum leiðangri í fyrsta sinn í eyjunni níu kólfsveppir og einn slímsveppur.