9. desember 2009. Borgþór Magnússon: Mýrar í norðlægum löndum: fjölbreytni og flokkun

9. desember 2009. Borgþór Magnússon: Mýrar í norðlægum löndum: fjölbreytni og flokkun

Borgþór Magnússon, vistfræðingur og forstöðumaður vistfræðideildar hjá Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt „Mýrar í norðlægum löndum: fjölbreytni og flokkun“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 9. desember.

Mýrar á jörðinni eru taldar vera um 5 milljónir km2 að flatarmáli. Bróðurpartur þeirra er á norðurhveli, milli 50. og 70. breiddargráðu, á svæðum þar sem árleg úrkoma er meiri en uppgufun. Mýrlendustu landsvæðin liggja frá Alaska og norðurhluta Kanada um Ísland til landa Norðvestur-Evrópu og þaðan austur um Rússland og Síberíu. Stærstu samfelldu mýrasvæðin er að finna suður af Hudsonflóa í Kanada og í vesturhluta Síberíu.

Mýrarnar eru mjög breytilegar að gróðri og allri gerð. Jafnframt taka þær breytingum í tímans rás eins og önnur vistkerfi. Það er einkum lega þeirra í landslagi og uppruni vatns og steinefna er til þeirra berast sem ræður mestu um gróðurfar þeirra, frjósemi og vistfræðilega ferla. Algengt er að mýrunum sé skipt í fjóra meginflokka. Íslensk heiti á þeim eru nokkuð á reiki, tillögur hér að neðan eru settar fram til umræðu:

Flæðimýrar (e. marshes) eru á flatlendi meðfram ám, vötnum og á árósasvæðum. Vatnsstaða er mjög breytileg yfir árið, flæði vatns um þær er mikið og vatnið er mjög steinefnaríkt. Grös og starir eru yfirleitt ríkjandi í gróðri. Flæðimýrar eru því mjög frjósamar og framleiðsla mikil. Niðurbrot plötuleyfa er hratt og mómyndun lítil. Flæðimýrar finnast á Íslandi.

Starmýrar (e. fens) finnast bæði á flatlendi og í hlíðum. Vatnsstreymi um þær er fremur greitt og vatnið er steinefnaríkt. Gróður einkennist af störum og brúnmosum. Starmýrar eru allfrjósamar og geta verið uppskeruríkar. Niðurbrot plöntuleyfa gengur fremur hægt fyrir sig og mómyndun er talsverð. Meginhluti mýra á Íslandi telst til starmýra.

Mosamýrar (e. bogs) eru bungulaga og finnast á hallalitlu landi. Vatn til þeirra berst eingöngu með úrkomu og er því mjög snautt af steinefnum. Gróður þeirra einkennist af samfelldri þekju Sphagnum-mosa (barnamosar) og sígrænum smárunnum. Gisinn barrskógur getur verið á mýrunum. Mosamýrar eru mjög ófrjósamar og framleiðsla lítil. Niðurbrot plöntuleyfa gengur hægt fyrir sig og er mómyndun mikil. Mosamýrar finnast ekki á Íslandi og stafar það líklega af mikilli eldvirkni og áfoki.

Skógmýrar (e. swamps) eru á flatlendi. Þeim svipar nokkuð til flæðimýra að því leyti að vatnsstaða er mjög breytileg yfir árið og streymi vatns og næringarefna um þær er fremur mikið. Grunnvatnsstaða lækkar yfir sumarið sem gerir trjám og runnum kleift að vaxa þar. Trén stemma uppi vatn og hægja á streymi þess. Skógmýrar eru yfirleitt frjósamar, uppskera mikil, niðurbrot plöntuleyfa er hratt og mómyndun fremur lítil. Ríkjandi gróður er breytilegur eftir landsvæðum, en helstu ættkvíslir eða tegundir eru elri, svartgreni, sedrusviður, askur og sýprusviður á suðursvæðum. Skógmýrar finnast ekki á Íslandi.