9. mars 2011. Borgþór Magnússon: Surtsey og gamlar úteyjar Vestmannaeyja

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Surtsey og gamlar úteyjar Vestmannaeyja“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 9. mars kl. 15:15

Árlegur leiðangur líffræðinga til Surtseyjar var farinn um miðjan júlí 2010. Að þessu sinni var einnig komið við í Elliðaey og Álsey og gerðar þar forathuganir á lífríki í samvinnu við Náttúrustofu Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hinar gömlu úteyjar Vestmannaeyja mynduðust fyrir þúsundum ára í neðansjávargosum líkt og Surtsey. Líta má á þær sem „gamlar Surtseyjar” sem sýna í hvaða átt landmótun og framvinda vistkerfis í Surtsey mun stefna er aldir líða. Úteyjarnar gömlu eru því sérstaklega áhugaverðar í öllum samanburði við Surtsey.

Í kjölfar Surtseyjargossins var háplöntuflóra og dýralíf úteyjanna nokkuð kannað, en litlar sem engar rannsóknir hafa þar farið fram á framleiðni eða starfsemi vistkerfa. Í úteyjunum eru stórar byggðir sjófugla sem hafa mikil áhrif á frjósemi jarðvegs og gróður með flutningi næringarefna frá sjó upp á eyjarnar. Í Surtsey hefur komið í ljós að sjófuglar gegna lykilhlutverki í framvindu gróðurs með aðflutningi fræja og næringarefna. Hefur það smám saman leitt til myndunar frjósams jarðvegs og gróskumikils graslendis þar sem varp er þéttast. Áhugi er fyrir að auka á næstu árum líffræðirannsóknir í úteyjum Vestmannaeyja og víkka þannig út rannsóknir sem fram hafa farið í Surtsey.

Í erindinu verður sagt frá leiðangrinum og helstu niðurstöðum forathugana sem gerðar voru.

Fyrirlesturinn á Youtube

Graslendi í Elliðaey
Mynd: NÍ Borþór Magnússon

Graslendi í Elliðaey. Heimaey í baksýn

Lundar í Surtsey
Mynd: NÍ Borþór Magnússon

Lundar við bjargbrún í Álsey. Lundinn leikur lykilhlutverk í vistkerfi úteyja með flutningi næringarefna frá sjó til lands og stöðugum greftri sínum og róti í holum. Lundi tók að verpa í Surtsey árið 2004.