Blómgresisvist

L9.7 Blómgresisvist

Eunis-flokkun: E1.7223 Northern boreal Festuca grasslands.

Lýsing

Blómríkt, gróskumikið graslendi eða jurtastóð í skjólsælum og sólríkum hlíðum og brekkum, mót suðri- og suðvestri. Land í litlum til allmiklum halla. Það er vel gróið og gróður er nokkuð hávaxinn. Æðplöntuþekja er mikil og mosalag er einnig þétt, en mjög lítið er um fléttur.

Plöntur

Vistgerðin er rík af tegundum æðplantna og mosa. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krossmaðra (Galium boreale), hálíngresi (Agrostis capillaris) og vall­elfting (Equisetum pratense). Algengastir mosa eru engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), móasigð (Sanionia uncinata), tildurmosi (Hylocomium splendens), geirmosi (Calliergonella cuspidata) og fjaðurgambri (Racomitrium elongatum). Af fléttum finnst helst engjaskóf (Peltigera canina).

Jarðvegur

Áfoksjörð er einráð, jarðvegur er þykkur, miðlungi ríkur af kolefni og sýrustig frekar lágt.

Fuglar

Talsvert fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis) og hrossagaukur ­(Gallinago gallinago).

Líkar vistgerðir

Língresis- og vingulsvist, sjávarkletta- og eyjavist og snarrótarvist.

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst á hlýjum og skjólsælum stöðum á láglendi, er algengust á Suðurlandi og í dölum vestan-, norðan- og austanlands.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.