Brokflóavist

L8.11

Eunis-flokkun

D2.26 Common cotton-grass fens.

Brokflóavist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Brokflóavist í mýrarsundi við Hólmavík á Ströndum. Klófífa er ríkjandi en með henni vaxa m.a. fölvastör og flóastör. Gróðursnið VF- 41-03. – Common cotton-grass fen in northwestern Iceland.

Brokflóavist
Mynd: Starri Heiðmarsson

Brokflóavist á Melrakkasléttu í Norður-Þingeyjarsýslu. Ríkjandi æðplöntutegundir eru hengistör, vetrarkvíðastör og klófífa. Gróðursnið MS-40-03. – Common cottongrass fen in northeastern Iceland.

Lýsing

Flatt til lítið eitt hallandi, deigt til forblautt mýrlendi vaxið klófífu og störum, í kvosum og á sléttlendi þar sem vatn stendur hátt og er á lítilli hreyfingu, fremur steinefnasnautt, smátjarnir og lænur algengar. Á þúfum og rimum vaxa smárunnar og aðrar þurrlendistegundir. Land er mjög vel gróið og gróður allhávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi og mosi nokkur í sverði, lítilsháttar er af fléttum á þúfum og rimum.

Plöntur

Vistgerðin er fremur rýr af æðplöntutegundum, miðlungi rík af mosum en fátæk af fléttutegundum. Ríkjandi tegundir æðplantna í brokflóavist eru klófífa (Erio­phorum angustifolium), bláberjalyng (Vaccinium uliginosum) og fjalldrapi (Betula nana). Algengastir mosa eru tildurmosi (Hylocomium splendens), móasigð (Sanionia uncinata), móatrefja (Ptilidium ciliare), hrísmosi (Pleurozium schreberi), fjóluburi (Sphagnum subnitens subsp. subnitens), mýra­krækja (Scorpidium revolvens) og hraungambri (Racomitrium lanuginosum) en algengustu fléttur eru hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula).

Jarðvegur

Lífræn jörð er einráð. Jarðvegur er mjög þykkur og ríkari af kolefni og súrari en jarðvegur annarra vistgerða.

Fuglar

Allríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og álft (Cygnus cygnus).

Líkar vistgerðir

Rimamýravist, runnamýravist á láglendi og tjarna­stararflóavist.

Útbreiðsla

Brokflóavist finnst um allt land, á láglendi og til heiða, mest er um hana á blágrýtissvæðum landsins, fjarri gosbeltinu, þar sem áfok er lítið og jarðvegur fremur snauður. Mest er um hana á Mýrum og norðvestan- og norðaustanlands.

Verndargildi

Mjög hátt.

Brokflóavist

Brokflóavist er allútbreidd en hún finnst í 34% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 700 km2, óvissa mikil, óglögg skil við líkar vistgerðir. – The habitat type is rather common in Iceland and is found within 34% of all grid squares. Its total area is estimated 700 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í brokflóavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá