Finnungsvist

L9.2 Finnungsvist

Eunis-flokkun: E1.711 Insular Nardus-Galium grasslands.

Lýsing

Fremur einsleitt, rýrt graslendi vaxið finnungi og ýmsum gras- og mólendistegundum. Finnungur er víðast hvar algjörlega ríkjandi og myndar áberandi ljósa flekki í landslagi. Vistgerðin finnst í brekkum og kvosum á láglendi og til heiða en eingöngu á snjóþungum svæðum þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori. Land er yfirleitt í talsverðum halla og mjög vel gróið. Gróður er í meðallagi hár, æðplöntur ríkjandi í gróðurþekju og mosi nokkur í sverði. Fléttuþekja er mjög lítil.

Plöntur

Vistgerðin er fremur rík af æðplöntutegundum en miðlungi rík af mosum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru finnungur (Nardus stricta), hálíngresi (Agrostis capillaris) og krækilyng (Empetrum nigrum). Algengastir mosa eru tildurmosi (Hylocomium splendens), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), hrísmosi (Pleurozium schreberi), urðalarfi (Barbilophozia hatcheri) og hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Af fléttum finnast helst kryppukrókar (Cladonia macroceras) og torfubikar (C. pocillum).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi. Jarðvegur er þurr til lítilsháttar deigur og fremur grunnur, ríkur af kolefni en sýrustig hans er mjög lágt.

Fuglar

Rýrt fuglaland, þúfutittlingur (Anthus pratensis)  líklegur varpfugl.

Líkar vistgerðir

Bugðupuntsvist.

Útbreiðsla

Lítil vistgerð, finnst á snjóþyngstu svæðum landsins, algengust á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.