Giljamóavist

Giljamóavist

Dwarf scrub heath with gullies

EUNIS-flokkun

F2.1 Subarctic and alpine dwarf willow scrub.

Lýsing

Vel gróið (meðalþekja ~95%), allþurrt eða deigt, yfirleitt hallandi mólendi, neðarlega í hlíðum og brekkurótum en einnig sléttir, smáþýfðir flatlendismóar með lækjum og skorningum. Í halla er mólendið víðast sundurskorið af smáum giljum, lækjum og skorningum. Sum gilin eru algróin en önnur með moldarbörðum. Víða eru lækir eða lækjarsytrur og sums staðar vatnslitlar lindir með dýjamosum. Milli gilja og lækja er land vaxið lágvöxnum mólendisgróðri (<10 cm). Með lækjum og í skorningum vaxa ýmsar snjódældaplöntur, sumar nokkuð hávaxnar. Gróðurþekja samanstendur að mestu af háplöntum og mosum en fléttuþekja er lítil. Mjög fjölbreytt háplöntuflóra. Frosttíglar í jarðvegsyfirborði sums staðar algengir milli gilja.

Jarðvegur

Áfoksjörð. Á milli gilja og lækja er allþykkur áfoksjarðvegur, miðlungi næringarríkur, en í giljum er jarðvegur þynnri, rakari og næringarríkari. Magn kolefnis og sýrustig óþekkt því jarðvegssýni voru ekki tekin.

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru krækilyng, kornsúra, klóelfting og túnvingull en einnig er talsvert af stinnastör, holtasóley og lambagrasi. Upplýsingar um mosa- og fléttuflóru liggja ekki fyrir.

Fuglar

Í úrvinnslu fuglagagna voru gilja- og lyngmóar teknir saman. Sjá umfjöllun um lyngmóavist.

Smádýr

Af tvívængjum eru tegundir af svarðmýsætt (Sciaridae), Scaptosciara vivida og Bradysya rufescens, áberandi, einnig mókryppa (Megaselia sordida). Tegundir af kálfluguætt (Anthomyiidae) og húsfluguætt (Muscidae) eru einnig algengar þar sem gróður er gróskumestur. Af bjöllum er víðiglytta (Phratora polaris) algengust, en gullsmiður (Amara quenseli), silakeppur (Otiorhynchus arcticus) og hélukeppur (O. nodosus) fylgja þar á eftir. Sníkjuvespan Rhopus semiapterus er allalgeng. Af köngulóm er hnoðakönguló (Pardosa palustris) áberandi algengust. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Lyngmóavist og víðimóavist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Sjá lyngmóavist.

Verndargildi

Mjög hátt. Lyngmóavist og giljamóavist eru metnar saman.